151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um mjög gott mál til jöfnunar. Ríkisstjórnin hefur á kjörtímabilinu lagt mikla áherslu á öflugar byggðaaðgerðir, í samgöngumálum, innviðauppbyggingu og ljósleiðaravæðingu um hinar dreifðu byggðir. Hér erum við að jafna orkuverð í landinu. Við erum að jafna að fullu flutningsgjald á raforku 1. september á næsta ári án þess að hækka jöfnunargjaldið á flutninginn svo þetta er gífurlega gott mál, mikið framfaramál og stór áfangi í jöfnun búsetuskilyrða um allt land. Ég gleðst mjög yfir þessu, enda hefur þetta verið mikið baráttumál Vinstri grænna og sem betur fer fleiri flokka hér á þingi og er nú að ná í höfn.