151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:11]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við náum mjög merkum áfanga í dag að jafna með þessum hætti það óréttlæti sem hv. þingmenn hafa nefnt og ég tek undir að ákveðnu leyti. Það getur ekki verið annað en okkur til vansa að við höfum látið það viðgangast í svo langan tíma að fámennur hluti þessarar þjóðar þurfi einn að byggja upp dreifikerfi dreifbýlis sem hann fékk í arf í uppskiptingu þar sem næstum allri uppbyggingu í þéttbýli var lokið á sínum tíma, ekki nærri jafn mikil endurnýjun og þarf hjá þjóð sem nú stefnir hraðbyri til orkuskipta. Með aukinni notkun á rafmagni, ekki síst til samgangna, getum við ekki látið það alveg óhreyft að taka utan um þetta mál og hver sem lausnin verður, sem ég veit að hæstv. ráðherra er áfram að vinna að og ég styð hana eindregið í því, tek ég undir það sem menn segja: Við þurfum varanlegri lausn. En við skulum fagna þessum áfanga í dag. Hann er merkur.