151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[15:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er á ferðinni býsna gott mál og þarft. Það er mikilvægt að í því er komið til móts við þessa gríðarstóru fjöldahreyfingu þar sem þúsundir manna starfa í sjálfboðavinnu og fáein þúsund í launuðum störfum. Það skiptir máli að þeir aðilar fái skilaboð frá okkur um það að við séum tilbúin til þess að hlaupa undir bagga með þeim eins og öðrum sem hafa orðið fyrir búsifjum í Covid-faraldrinum. Ég styð því þetta mál heils hugar sem og þingflokkur Vinstri grænna. Ég hlakka til að taka við málinu á milli umræðna í nefndinni ef það getur orðið til þess að leiðrétta þann skoðanamun og mögulega misskilning sem menn hafa talað um hér áður en við göngum frá málinu endanlega.