151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

20. mál
[15:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp og fagna, eins og aðrir hv. þingmenn, því að við séum að afgreiða það mál og að fyrir því sé mjög mikill meiri hluti þingsins. Því miður er ekki algræn tafla, eins og hún ætti að vera að mínu mati árið 2020. En mér fannst rétt að nefna í leiðinni, í kjölfar allrar umræðunnar sem átti sér stað, að frelsið er ekki bara einhver einn hlutur. Það eru til alls konar mismunandi tegundir af frelsi. Viðskiptafrelsi er ein tegund, einstaklingsfrelsi er önnur, stundum. Hér er stigið skref til að auka einstaklingsfrelsi. Ég vildi óska þess að Alþingi Íslendinga liti meira á einstaklingshlutann þegar kemur að frelsinu á Íslandi. Það er mikið talað um frelsi í kosningabaráttu og í stefnum ýmissa stjórnmálaflokka, eðlilega. Frelsið er gott. En þegar kemur að einstaklingnum á taflan þarna að vera græn.