151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur .

374. mál
[16:15]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fjármagnstekjuskatturinn er ekki hár á Íslandi, sér í lagi í samanburði við hin Norðurlöndin þar sem hann er að jafnaði tvöfaldur á við það sem er hjá okkur. Að hækka frítekjumarkið akkúrat núna lýsir mjög skakkri forgangsröðun á því hvaða verk standa fyrir höndum og hverjir það eru sem þurfa nauðsynlega á skattafslætti eða aðstoð frá ríkinu að halda. Ekki má ríkið við þessum tekjumissi heldur. Ég heyri ekki annað en að það megi ekki safna meiri skuldum, það megi ekki eyða meiri pening vegna þess að ríkissjóður sé nú þegar í svo miklum útgjöldum. Við megum ekkert verða af þessum tekjum. Ég veit ekki af hverju þær eru í forgangi af þeim sem ríkisstjórnin ætlar að kasta á glæ. Að veita eignafólki skattafslátt akkúrat núna er snarvitlaus forgangsröðun. Við segjum nei við því ákvæði.