151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við úrskurði Mannréttindadómstólsins.

[10:56]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég veit hreinlega ekki í hvað hv. þingmaður er að vísa þegar hún segir að það sé verkefni ráðherra og ráðuneytisins að grípa inn í einstök atriði sem hún nefnir. Mannréttindadómstóllinn hefur komið mörgu góðu til leiðar og haft jákvæð áhrif á íslenskan rétt. En það er ekki þannig að niðurstaða dómstólsins gangi framar íslenskum niðurstöðum og það er ekki einu sinni þannig að niðurstaðan beini einhverju að ráðuneytinu eða framkvæmdarvaldinu sem þarfnast breytingar. Það er ýmislegt hægt að læra af dómnum og við liggjum yfir honum, að greina og skoða hvað hægt er að gera betur. Þarf að ræða skipan dómara í heild sinni? Þarna var verið að skipa fjölda dómara á einu bretti, sem er ólíklegt að gerist aftur. En það er alveg ljóst að ýmsir aðilar, ráðuneytið, ráðherra, þingið og Hæstiréttur, geta lesið dóminn og lært mikið af honum. En síðan spyr hv. þingmaður hvað eigi að gera við þá dóma. Það er á verksviði Endurupptökudóms sem við höfum komið á fót. Og það geta allir leitað réttar síns fyrir honum og óskað eftir endurupptöku mála. Það var meira að segja skýrt sérstaklega við lögfestingu á þeim dómstól að hægt væri að líta til niðurstaðna frá alþjóðlegum dómstól, og það geti verið grundvöllur endurupptöku ef það kynni að breyta niðurstöðu málsins. Það er ferlið sem er í boði og allir aðilar geta leitað réttar síns fyrir endurupptökudómstólnum sem er afar mikilvægt.

Síðan efast hv. þingmaður um að hægt sé að treysta hæfisnefndinni og því ferli sem við höfum verið með hér við skipan dómara, að hægt sé að treysta því við skipan dómara í Landsrétt. Ég frábið mér slíkt. Það er búið að skipa fjölda dómara með þessu ferli og ef við ætlum að ræða breytta skipan dómara á Íslandi þá skulum við frekar gera það.