151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við úrskurði Mannréttindadómstólsins.

[10:58]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta eru hreinlega vonbrigði. Svar hæstv. dómsmálaráðherra við spurningum mínum er hreinlega vonbrigði. Til upprifjunar var mannréttindasáttmáli Evrópu undirritaður á ráðherrafundi Evrópuráðsins í Róm árið 1950 og fullgiltur 29. júní 1953. Texti samningsins var síðar lögfestur í heild sinni í íslensk lög árið 1994. Einn mikilvægasti sáttmáli sem Ísland á aðild var þarna festur í íslensk lög í heild sinni og þar með þurfum við að lúta niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Það er grafalvarlegt ef dómsmálaráðherra Íslands kemur hér upp og hunsar hreinlega 46. gr. íslenskra laga um mannréttindasáttmála Evrópu og segir að hér þurfi bara að læra af niðurstöðu dómstólsins, (Forseti hringir.) læra af niðurstöðunni. Við ætlum ekki að taka þetta til okkar, við ætlum að læra af þessu.

Ég velti því líka fyrir mér hver á að læra af niðurstöðunni. Hæstv. ráðherra talar um endurupptökudómstólinn. (Forseti hringir.) Það er ekki einu sinni búið að setja hann á fót. Hann er ekki einu sinni tekinn til starfa. (Forseti hringir.) En við ætlum að læra af þessu öllu saman. Við ætlum kannski bara að fá þessar sendingar frá Strassborg, (Forseti hringir.) eins og fyrrverandi dómsmálaráðherra talaði um, eða tala um þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar, (Forseti hringir.) eins og formaður Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) sem fór með einhverja þvælu um að við höfum ekki einu sinni þjóðréttarlegar skuldbindingar hér, (Forseti hringir.) Ísland.

(Forseti (SJS): Þingmaður verður að ljúka máli sínu.)

Þetta eru vonbrigði. (Forseti hringir.) Svar hæstv. dómsmálaráðherra er veruleg vonbrigði.

(Forseti (SJS): Ég bið hv. þingmenn að fara ekki hátt í mínútu fram úr ræðutíma.)