151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

málsmeðferðartími sakamála.

[11:02]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Verst geymda leyndarmál réttarkerfisins er sennilega langur málsmeðferðartími. Skiptir þessi regla einhverju sérstöku máli fyrir venjulegt fólk í landinu? Já, vegna þess að dómar fyrir alvarleg sakamál eru vægari, mál hafa dregist á langinn innan kerfisins og dómarnir verða vægari en þeir hefðu annars orðið. Þetta er grundvallarregla sem varðar hagsmuni sakborninga og brotaþola og þetta er grundvallarregla sem varðar hagsmuni samfélagsins alls. Hún er svo sterk að hún er sérstaklega áréttuð í stjórnarskránni okkar og í 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og hún hefur mikla þýðingu í tengslum við rannsókn og saksókn sakamála. Vægi reglunnar er að aukast í dómaframkvæmd. Tugir dóma hafa gengið á síðustu árum þar sem um þetta er fjallað, dómar í alls konar sakamálum, t.d. í kynferðisbrotamálunum, sem ég held að allur almenningur í landinu álíti hin alvarlegustu í okkar samfélagi. Þessi staða er í mínum huga ekki bara vond. Hún er hættuleg.

Forseti. Kerfið ber ekki ábyrgð á þessari stöðu. Þar kemur tvennt til. Svona eru leikreglurnar í fyrsta lagi og innan kerfisins vinnur fólk gott starf en undir miklu álagi. Ástæðan fyrir því að málin dragast er ekki flókin. Málunum fjölgar, málum hjá ákæruvaldi fjölgaði um 40% í fyrra, málin eru að þyngjast, en starfsfólkinu fjölgar ekki í samræmi við það. Ég nefni af handahófi nauðgunardóm þar sem dráttur hafði orðið á meðferð málsins vegna mikils álags innan kerfisins. Þær skýringar duga ekki til gagnvart dómstólum því að málsmeðferðin brýtur á réttindum sakbornings. Dómurinn var skilorðsbundinn að fullu. Þetta sama sjáum við í Landsrétti síðast í þessum mánuði, skilorðsbundinn dómur að fullu í kynferðisbrotamáli. Ég spyr þess vegna hæstv. dómsmálaráðherra, sem fer með þennan málaflokk: Hvaða lausnir sér hún á þessari stöðu?