151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

málsmeðferðartími sakamála.

[11:04]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er alveg hárrétt að það er óboðlegt í íslensku réttarkerfi að þetta sé niðurstaðan vegna málsmeðferðartíma stjórnvalda. Það eru rúmlega tvö og hálft ár síðan að kynnt var formleg aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota þar sem var gefið verulega í með það að markmiði að bæta og styrkja alhliða meðferð slíkra mála á landsvísu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með langflest málin. Skipulagningu í þeirri rannsóknardeild hefur verið breytt. Öll mál eru greind frá upphafi með sækjendum og lögreglufulltrúum og mál fara í réttan farveg. Staðan er sú að það er búið að fjölga verulega starfsmönnum í öllum deildum. Álag héraðssaksóknara helst auðvitað í hendur við fjölgun kæra kynferðisbrota. En það eru eldri mál í kerfinu þar sem við erum enn þá að vinna í því að vinna upp halann og sú breytta mynd og þeir auknu fjármunir sem hafa verið settir í þennan málaflokk hafa ekki náð að hafa áhrif á þann málsmeðferðartíma. Á sama tíma hefur þeim brotum sem eru kærð verið að fjölga, það er 50% aukning ef við miðum við að það sé sambærileg aukning á mánuðum. En það hefur verið mikil áhersla lögð á að mál séu afgreidd hratt og örugglega og nú eru aðeins tvö mál sem bíða afgreiðslu sem eru ársgömul og önnur eru yngri. Okkur er að takast að vinna á halanum. Það eru dómar að falla, vissulega, sem eru í gamla halanum sem við erum enn að vinna upp en rafræn rannsóknaráætlun sem er komin í lögreglukerfið mun hraða málsmeðferðartíma og er að gera það og hefur stytt málsmeðferðartímann nú þegar og haft þau áhrif að mál koma síður til baka, t.d. frá saksóknara. Rannsóknin er þess vegna líka vandaðri og ítarlegri. Það er búið að fjölga rannsóknarlögreglumönnum og sækjendum á þessu sviði en við erum meðvituð um vandamálið. Ég tel að við séum að rétta úr kútnum eins hratt og við getum en svona kerfisbreytingar taka auðvitað tíma.