151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

málsmeðferðartími sakamála.

[11:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið sem vísar í að tvö og hálft ár séu síðan aðgerðaáætlun var sett. Staðreyndin er engu að síður sú að dómar í þessa veruna eru enn að falla. Síðast í þessum mánuði, ég held ég fari örugglega rétt með það, eða í nóvembermánuði var dómur í nauðgunarmáli skilorðsbundinn að fullu með vísan til þessa. Ég veit það og þekki það mjög vel að margt gott hefur verið gert innan kerfisins af hálfu starfsfólksins sjálfs og rafrænar rannsóknaráætlanir hafa ekki verið meginvandamál innan kerfisins heldur aukinn málaþungi og að viðbrögð af hálfu stjórnvalda hafa ekki verið í samræmi við það.

Dómsmálaráðherra er vissulega ný í þessu ráðuneyti en það er hennar flokkur ekki, hann hefur setið þar samfellt í sjö ár. Þetta er saga sem er talin í árum og þarna eru dómarar að slá þannig á putta kerfisins að við þykjum á mörkum þess sem mannréttindasáttmálinn býður okkur um meðferð í þessum efnum. Og hver eru skilaboðin til brotaþolanna sem leggja af stað með (Forseti hringir.) kæru og fá þessa niðurstöðu? Á ríkjum hvílir skylda að verja öryggi borgaranna og ég get ekki séð að við gerum það þegar samfélagið okkar, dómstólarnir okkar, (Forseti hringir.) þurfa að fella dóma með þessum hætti vegna þess að kerfið annar ekki málunum.