151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[11:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er gott mál. Bændur standa frammi fyrir miklum vanda núna eins og aðrir þjóðfélagsþegnar og það þarf að taka á þeim vanda líka. Það er mikil birgðasöfnun í landinu. Það snýr auðvitað að fækkun ferðafólks og allar þjóðir í kringum okkur taka nú á vanda framleiðslugreina sinna, eins og landbúnaðarins. Við hljótum að gera það sama og vera stolt af því að verja landbúnaðarframleiðslu okkar. Við erum að gera það núna með því að breyta fyrirkomulagi á úthlutun tolla. Það þarf að endurskoða þann vonda tollasamning sem var afgreiddur fyrir nokkrum misserum síðan á ábyrgð einhverra aðila sem eru hér á þingi núna. Við þurfum að endurskoða þann samning. En núna gerum við þetta með þessum hætti, að breyta fyrirkomulagi úthlutunar, og ég trúi ekki öðru en að þingheimur standi með bændum í erfiðleikum þeirra og að þjóðin horfi til þess að kaupa íslenska framleiðslu.

Verðið? Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því að verð á (Forseti hringir.) landbúnaðarafurðum verði neitt öðruvísi en áður hefur verið. Þær hafa ekki hækkað í samanburði við aðra vöru í landinu og innflutningur endurspeglar ekki lækkun á mörkuðum erlendis.