151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[11:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um mál sem snýr að fyrirkomulagi við úthlutun tollkvóta. Þegar við ákveðum með hvaða hætti við tökum inn til landsins kjötvörur frá öðrum löndum þá byggir það í fyrsta lagi á tollasamningum sem við höfum nýverið gert til að auka magnið sem getur komið til landsins. Þegar við tökum ákvörðun um umfangið erum við að horfa til framleiðslunnar hér innan lands og hver þörfin er. Þetta stillum við allt af. Fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta er sömuleiðis liður í ákvörðunum sem taka þarf í þessu tilliti. Þegar við tókum ákvörðun um það fyrirkomulag sem nú gildir voru allt aðrar aðstæður uppi, miklu meiri eftirspurn innan lands vegna ferðamanna. Það er ekki nema eðlilegt viðbragð af okkar hálfu þegar forsendur gerbreytast, að taka fyrirkomulag úthlutunar tollkvóta til endurskoðunar, vegna þess að forsendurnar fyrir því fyrirkomulagi sem er í gildi í dag eru brostnar. Þetta hefði maður haldið að allir sæju, en því miður virðist það ekki vera þannig.