151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[11:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við fögnum hverju skrefi í rétta átt, ekki síst þegar það skref snýst um að koma aðeins til móts við íslenskan landbúnað því að greinin hefur setið eftir, hún hefur verið út undan. Nú eftir marga mánuði af aðgerðum til að bregðast við áhrifum faraldursins kemur loks hér dálítið frumvarp til að bregðast við stöðu landbúnaðarins og matvælaframleiðslunnar og aldeilis tímabært.

Ég fagna því líka að hingað hafa meðal annars komið fulltrúar meiri hlutans og viðurkennt að þetta sé ekki nóg, að meira þurfi til. Jafnvel þeir sem ætla að standa gegn þessu máli, af ástæðum sem eru algerlega óskiljanlegar, viðurkenna þó að vandinn sé stór, umfangsmikill og þarfnist mikilla aðgerða. Þá minni ég, herra forseti, á tillögu okkar í Miðflokknum um heildaráætlun um aðgerðir til að koma til móts við íslenska matvælaframleiðslu og hefja þar sókn og hvet virðulegan forseta til að beita sér fyrir því við þessar aðstæður, hafandi heyrt vilja þingsins, að það mál fái sem hraðastan framgang hér í þinginu. Ég afhendi forseta eintak … [Hlátur í þingsal.]

(Forseti (SJS): Forseti þakkar fyrir sendinguna.)