151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:17]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og vil byrja aðeins á að koma inn á kröfur um skilvirkni og hagræðingu í allri starfsemi hins opinbera, á það skortir í þessari fjármálaáætlun. Það er auðveldlega hægt að gera án þess að það bitni á þeim sem þurfa aðstoð í þeim erfiðleikum sem við glímum við núna og í hinu mikla atvinnuleysi. Að það taki fimm ár að ná jafnvægi í fjármálum ríkisins er mjög langur tími. Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að komi til niðurgreiðslu skulda heldur um lækkun sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þannig á að vinna á skuldunum og þá hefur ríkissjóður lítið svigrúm. Nýrrar ríkisstjórnar bíður því vandasamt verkefni og það þarf svo sannarlega að huga vel að forgangsröðun ríkisfjármálanna í erfiðum aðstæðum.

Ragnar Árnason hagfræðiprófessor sagði fyrir stuttu að sá mikli halli sem nú sé kominn á ríkissjóð geti dregið efnahagsáhrif veirufaraldursins á langinn, hagvöxtur þurfi að vera mjög mikill ef ekki eigi að koma til niðurskurðar eða skattahækkana. Svo bætir hann við í lokin og segir að sá hagvöxtur sé ekki fyrirsjáanlegur. Ég hefði gjarnan viljað fá álit hv. þingmanns og framsögumanns, Haraldar Benediktssonar, á þessum ummælum og hvernig það blasir þá við ef það gengur eftir að sá hagvöxtur (Forseti hringir.) sem gert er ráð fyrir í áætluninni sé leiðin til þess að ná niður skuldunum. Hann er ekki fyrirsjáanlegur eftir allt saman.