151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mér finnst á margan hátt mjög eðlilegt að þingmaðurinn velti þessu fyrir sér. Ég held að í vinnu fjárlaganefndar höfum við öll verið í sömu sporum hvað þetta varðar. Það er erfitt að spá um framtíðina og við værum örugglega hvorugir í þessu starfi sem við erum í dag ef við hefðum séð inn í framtíðina.

Ég held að við getum notað einn samanburð sem kannski svarar hv. þingmanni með ákveðnum hætti. Við sáum í samanburði við nágrannaríki okkar, skandinavísku ríkin, hversu samdrátturinn á Íslandi var krappur, miklu krappari en annars staðar þar sem við vorum að fara niður um tæp 10% meðan landsframleiðsla og hagvöxtur annarra ríkja var að skreppa minna saman eða kannski hægar saman öllu frekar. Það gefur okkur líka ákveðið tækifæri til að álykta sem svo að upprisan verði líka skörp þannig að viðsnúningurinn eða viðspyrnan verði líka öflug og kannski í sama samhengi og kreppan, viðsnúningurinn eða samdrátturinn var. Við vitum þetta að sjálfsögðu ekki en við getum með því að rýna þau gögn sem ég vitnaði hér til búið okkur til ákveðna sviðsmynd fyrir því. Við erum að byggja þessa áætlun á framlögðum hagspám til lengri tíma.

Hv. þingmaður spyr um álit á ummælum hins ágæta hagfræðings Ragnars Árnasonar. Þá ætla ég einungis að segja: Ég hef þessa sýn, ég trúi á kröftugri viðspyrnu en kemur kannski fram í spám. Við erum ekki að leggja það undir áætlanagerðina eða vísa til hennar beint. En það má taka orð hagfræðingsins alvarlega að því leyti, eins og ég tæpti á í framsögu minni, að skuldasöfnunin, verði hún óhófleg og mun meiri, getur fylgt okkur um langa tíð.