151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að ræða fjármálaáætlun til fimm ára. Þetta eru ekki fjárlög, þetta er fjármálaáætlun til fimm ára og þá getum við litið til framtíðar. Í þessu plaggi sést framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar, fimm ára sýn. Þess vegna vil ég fókusera svolítið á framtíðina. Ég held að allir séu sammála um að við þurfum að einbeita okkur mun meira að umhverfis- og loftslagsmálum. Ráðherrarnir virðast átta sig á þessu. Þeir eru búnir að halda blaðamannafund eftir blaðamannafund, skrifa greinar eftir greinar um að hér eigi að setja metnaðarfyllri markmið í loftslagsmálum. Gott mál. En síðan þegar við rýnum í tölurnar, sem er hlutverk okkar og ég hvet reyndar fjölmiðla til að gera það sama, að skoða hver þróunin verður til ákveðinna málefnaflokka, málefnasviða. Maður hefði haldið að öll þessi áhersla á umhverfismál, öll þessi áhersla á loftslagsmál, myndi birtast í töflunni þegar kemur að fjárútlátum til umhverfis- og loftslagsmála. Hvernig er staðan? Látum tölurnar tala sínu máli. Frá því að fjármálaáætlunin var kynnt í október og frá því að við fengum kynningu á uppfærðu plaggi í vikunni þá breyttust fjárframlög til umhverfismála fyrir næsta ár, takið eftir, um 0,3%. Hækkunin er um 0,3% frá því sem boðið var upp á í þessu plaggi í október miðað við það sem er núna. Aukningin fyrir 2022 er 1,2%, 1,8% 2023 o.s.frv. Ef ég tek heildina frá 2021–2025 er aukningin 7,7% í umhverfismál, á fimm árum. Er þetta bylting í umhverfismálum? Er það græn bylting að auka fjárframlög einungis um 7,7% í fjármálaáætluninni? (Forseti hringir.) Hvar eru peningarnir, herra forseti? Orð geta verið ódýr, en ef við meinum eitthvað það sem við segjum (Forseti hringir.) þá hljóta stjórnarflokkarnir að vera tilbúnir að setja allverulega (Forseti hringir.) meiri fjármuni í umhverfismál og ekki síst loftslagsmálin.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk bæði í fyrri og seinni umferð.)