151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek undir áhyggjur hans af þróun mála í umhverfismálum sem er mjög mikilvægur málaflokkur, enda hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur endurspeglað það mjög rækilega. Það er að mínu viti aðeins hálfur sannleikur að fjalla um þetta með þeim hætti sem hv. þingmaður gerir, þar sem hann horfir á töflu fjármálaáætlunar og dregur ályktanir út frá því en gleymir að segja söguna alla. Sagan öll er einfaldlega sú að í fjárlögum árið 2017 fóru 16,4 milljarðar til málaflokksins. Í tillögum til fjárlaga 2021 sem nú hafa verið staðfest við 2. umr. eru það rétt tæpir 25 milljarðar kr., 8 milljarða kr. aukning, 48,2%. Þetta eru gríðarlega miklir fjármunir. Það er ósanngjarnt, hv. þingmaður, og það veit þingmaðurinn þó að hann ákveði að fjalla um þetta með þeim hætti sem hann velur að gera til þess að draga fram ákveðna mynd, ég geri ekki athugasemd við það. Það eru þessir fjármunir, þessir auknu fjármunir sem við eigum að horfa til þegar hv. þingmaður fer að reikna síðan og endurbirta tölur úr töflu hvernig útgjöld munu þróast. Það er samt 7% hækkun ofan á þessa miklu aukningu sem hefur orðið á undanförnum árum, virðulegi forseti.