151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki ósanngjarnt að vísa í þessar tölur. Já, ég er að gagnrýna að hér sé sett of lítið í loftslags- og umhverfismál. Ég átta mig á að það eru 25 milljarðar sem fara í umhverfismál en það er minna en 1% af fjárlögunum. Vita kjósendur það að ríkisstjórnin er tilbúin að setja minna en 1% af því sem ríkisstjórnin hefur úr að spila í umhverfismál? Og viðbótin til 2021 var 0,1% af landsframleiðslu. Hún var rúmir 3 milljarðar á milli ára. Þar af fór helmingur til ofanflóðavarna. Eina breytingin sem ríkisstjórnin var tilbúin að gera í umhverfismálum milli umræðna var styrkurinn til minkabænda. Það var tillagan sem nefndin setti í umhverfismál, afskaplega sérkennileg nálgun á niðurgreiðslu þess rekstrar að skrifa það sem umhverfismál. Jú, tölurnar standa óhaggaðar fyrir framan þjóðina og okkur öll. Það er einfaldlega sett of lítið í umhverfismál, (Forseti hringir.)1% er of lítið og þrátt fyrir allar þessar stórkarlalegu og miklu yfirlýsingar frá hv. þingmanni og fleirum (Forseti hringir.) í umhverfismálum birtist sama sem engin breyting í töflunum milli umræðna.