151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður heldur sig á mjög kunnuglegum slóðum, kannski ekki mikið í pólitík, hvernig við beitum fjármunum, heldur hvernig við förum að því og það er líka nauðsynlegt að taka þá umræðu. Það ætla ég að taka undir og það er mikilvægt að við höfum skýr markmið, skýra mælikvarðanotkun fjármuna og hvaða árangri við erum að ná. Það erum við að reyna að taka utan um í áætlanagerð okkar og það veit hv. þingmaður vel, hvernig við erum að þróa þá mælikvarða og setja fjármál fram með þeim hætti að við fylgjum slíkum mælikvörðum. Í áliti fjármálaráðs er einmitt fjallað mjög ítarlega um það, t.d. hvernig við eigum að meta árangur af fjárfestingarverkefnum. Ég hef reyndar aðeins velt fyrir mér þeim punkti fjármálaráðs hvernig við metum árangur slíkra verkefna, arðbærni verkefna. Ég held að mikilvægt sé, að sjálfsögðu, að við röðum fjárfestingum eftir arðbærni þeirra og hversu mikið það bætir rekstur samfélagsins að ráðast í slíkar fjárfestingar. En ég held að á margan hátt þurfi að fara varlega í slíkum mælikvörðum og ég tek bara þetta litla dæmi af því að ég held að það sé ekki alveg einfalt verkefni hvernig við notum slíka mælikvarða. Það getur verið, eins og ég nefndi í einhverju samtali, arðbært að byggja skurðstofu í Reykjavík en ekki eins arðbært að byggja hana í Neskaupstað. Þó geta áhrif fjárfestingar í byggingu skurðstofu í Neskaupstað verið gríðarlega mikilvæg fyrir svæðið, vilja fólksins til að búa þar og öryggistilfinningu þess. Þetta er vandinn, ég er að reyna að leiða að því umræðuna, virðulegi forseti, það er vandi að setja saman slíka mælikvarða, en það eru einmitt mælikvarðar sem við þurfum að nota þegar við ákveðum útgjöld, að þeir séu gagnsæir og skiljanlegir og að við skiljum ávinning af þeim fjármunum sem við leggjum til viðkomandi málaflokka.