151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tek undir með honum að við erum við afar sérstakar aðstæður að ræða fjármálaáætlun og það er stutt í næstu umferð, sem verður þá fjármálaáætlun ríkisstjórnar sem á aðeins eftir nokkra mánuði af sínu kjörtímabili. Þetta er afar sérstakt og kannski umhugsunarefni fyrir okkur hvernig við beitum þessum tækjum. En ég held að áætlanagerðin sé mjög nauðsynleg og dýrmæt. Ég ætla að rifja það upp að þegar við vorum að vinna að lögum um opinber fjármál árin 2014 og 2015 var eitt af þeim atriðum sem komu fram þegar við vorum að bera þessa löggjöf saman við önnur lönd, að stjórnmálaflokkar þyrftu að fara í gegnum fjármálaráð einhvers konar með sínar stefnuskrár. Það væri kannski verðmætt við þessar aðstæður þegar slík staða er komin upp í efnahagslífi að við færum fram með þeim ábyrga hætti að rýna til lengri tíma hvað flokkarnir bjóða upp á þannig að fólk hefði skýrt val í þeim efnum. En á þessum árstíma ættum við kannski bara að spyrja völvu um hvað framtíðin beri í skauti sér.

Ég skildi spurningu hv. þingmanns um fjármagnskostnað ríkisins og vaxtastigið, eðlilega höfum við áhyggjur af því. Ég hafði því miður ekki tök eða tíma til að taka gögn með mér hingað, en ég hef aðeins verið að fletta í gömlum ríkisreikningum og skoða vaxtastig eða byrði ríkisútgjalda af vöxtum í gegnum árum. Mér sýnist hún núna, eða eins og hún birtist í þessari áætlun, ekki vera miklu meiri en hún var t.d. fyrir hrun. En ég segi þetta án ábyrgðar. Ég náði ekki að komast yfir gögnin til að geta vitnað beint í þau.

Virðulegur forseti. Hvað finnst mér um vaxtastigið og hver er ástæða þessa háa vaxtamunar? Ég ætla að svara því með því segja: Ríkissjóður nýtur góðs lánstrausts og fær lán á hagstæðum kjörum. — Nú er tími minn útrunninn.