151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek undir að það væri verðugt verkefni að skoða betur hvernig svona samfella í ríkisfjármálum gæti orðið á milli kjörtímabila. Það er auðvitað viðfangsefni, en það byggir þá svolítið á því að við breyttum örlítið stjórnmálakúltúr okkar og hefðum meiri samvinnu um langtímamarkmið í fjármálunum, en það gæti reynst þrautin þyngri. En ég vildi þá spyrja beint í kringum þessi vaxtamál: Kann það að vera að sú staðreynd að þrátt fyrir að vaxtakjör séu að einhverju leyti hagstæð fyrir ríkissjóð, þá séu þau miklu óhagstæðari en fyrir aðra ríkissjóði? Kann það að vera skýringin að við búum við örmynt? Og að þetta sé eiginlega bara enn ein birtingarmynd (Forseti hringir.) þess Íslandsálags, sem margir kalla, sem Íslendingar, þ.e. ríkissjóður, heimili og fyrirtæki, þurfa að greiða (Forseti hringir.) fyrir krónuna og hvort það álag (Forseti hringir.) sé ekki orðið fullhátt.