151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

staðan í sóttvarnaaðgerðum.

[13:55]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er mikilvægt að við vöndum okkur í þessari umræðu vegna þess, og við eigum hana, að það er grundvöllurinn fyrir trausti, það er grundvöllur sem virkar, það er grundvöllurinn fyrir því að sóttvarnir virki. Ég tel að allir hafi reynt að vanda sig og menn séu svolítið að passa sig að fara ekki fram úr sér. Ég heyri ekki annað en að vel sé tekið í þá bón og forseti muni taka vel í að heilbrigðisráðherra eigi þessa umræðu og hún er reyndar búin að eiga þær nokkrar hérna með okkur í þinginu. Það er mikilvægt að hafa skýra mynd þegar við förum inn í hátíðarnar af því hvernig nýja árið muni líta út af því að eftir því sem við færum okkur nær hjarðónæminu þurfa ráðstafanirnar ekki að vera jafn harðar og þær eru.

Þá vil ég líka ítreka: Sóttvarnaráðstafanirnar voru ekki harðari en svo að í Svíþjóð, Wall Street Journal tók þetta saman, voru efnahagslegu áhrifin af því að fara þá leiðina sem var farin verri en í Noregi og Danmörku, þ.e. landsframleiðslan minnkaði meira í Svíþjóð, atvinnuleysi jókst meira í Svíþjóð. Það er ekki bara það að sú leið sem við fórum á Íslandi verndaði líf og heilsu fólks betur, hún verndaði líka hagkerfið okkar betur.

Við höfum vandað okkur, höldum áfram að gera það og eigum þessa orðræðu við heilbrigðisráðherra, vonandi á morgun.