151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vona að hæstv. forseti njóti ræðu minnar hér í dag í ljósi þess að við erum bara tveir í salnum — nei, hérna bætist einn við. Ég veit að hæstv. forseti er mikill aðdáandi ræðna minna, sérstaklega þegar kemur að fjármálum og kannski kannast hæstv. forseti eitthvað við þann tón sem ég mun slá hér.

Við erum að skoða fjármálaáætlun til fimm ára og ólíkt fjárlögum er það framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar sem birtist í þessu plaggi. Hér sjáum við á spilin, hér sjáum við hvert ríkisstjórnin stefnir, haldi hún völdum. Þess vegna er þetta mjög áhugavert plagg og ég vona að fólk kynni sér það, hvort sem það eru kjósendur, fjölmiðlar eða aðrir vegna þess að málin verða ekki stærri en þetta. Í þessu plaggi eru 5.000 milljarðar kr. Við ættum því að taka mjög góða umræðu, ekki síst úti í samfélaginu, um hvað er að finna í umræddu plaggi og hvað ekki.

Við höfum heyrt klisjurnar um fordæmalausa tíma sem við lifum nú. Fordæmalausir tímar kalla að sjálfsögðu á fordæmalausar lausnir. Á þær skortir að stærstum hluta í fjármálaáætluninni. Áætlunin gæti verið bjartari en hér birtist. Ég átta mig á að við upplifum mjög erfiða tíma í hagkerfinu og þess vegna skiptir miklu máli að við höfum stjórnvöld sem taki stöðuna mjög alvarlega og geri jafnvel of mikið frekar en of lítið. Þetta er ekki bara eitthvert hefðbundið stjórnarandstöðukvabb um yfirboð og að vilja alltaf meira og meira. Það er í alvörunni þörf á að bregðast við þessari kreppu, sem er ekki venjuleg kreppa, þetta er dýpsta kreppa sem við höfum gengið í gegnum í 100 ár. Að kalla eftir frekari aðgerðum, þrátt fyrir þær aðgerðir sem hefur verið ráðist í, er í fullkomnu samræmi við þær ráðleggingar sem við fáum frá sérfræðingum. OECD hefur kallað eftir því. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur kallað eftir því. Alþjóðabankinn hefur kallað eftir því. Við þurfum að bregðast við með sögulega miklu inngripi, ef svo má segja, þegar kemur að ríkisfjármálunum til að viðspyrnan takist.

Ég veit að sjálfsögðu að hér stefnir í mjög mikinn halla. Hann þarf að greiða niður, að sjálfsögðu, og við gerum það á löngum tíma og við eigum að gera það á löngum tíma. Við eigum jafnvel að taka enn lengri tíma til að greiða hallann niður en hér birtist, því að annars glittir í sársaukafullan niðurskurð, aðhaldsaðgerðir eða hvað menn vilja kalla það, eftir einungis tvö ár. Það er fullkomlega eðlilegt, herra forseti, að taka langan tíma í að greiða niður útgjöld vegna svo mikils áfalls. Takið eftir, áfallið á Íslandi er meira en hjá mörgum öðrum þjóðum af því að við vorum svo háð ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan var stærsta atvinnugrein landsins. Stærri hlutdeild af landsframleiðslu má rekja til ferðaþjónustu en sjávarútvegs og stóriðju samanlagt. Allt að 30.000 manns unnu í ferðaþjónustu. Sú grein þurrkaðist nánast út. Við bindum auðvitað vonir við að hún taki við sér um leið og bóluefni berst en atvinnugreinin er engu að síður í miklum vandræðum. Allt þetta hefur áhrif á allar aðrar tölur.

Við þurfum að fjármagna samneysluna okkar en til að það sé hægt þurfum við að fjárfesta í okkur sjálfum. Við þurfum m.a. að fjárfesta í hinu opinbera. Við þurfum að styrkja einkaaðila. Þetta eru ekki tveir andstæðir pólar eins og stundum er sagt. Við eigum að gera hvort tveggja. Við eigum að fjölga störfum hjá hinu opinbera og hjá einkageiranum. Enginn er að kalla eftir að hið opinbera gnæfi yfir allt saman. Ég held að einkageirinn sé miklu stærri en hið opinbera. En við höfum séð að innviðirnir, opinberu innviðirnir, hafa verið í vandræðum og voru meira að segja í vandræðum fyrir Covid. Munið umræðuna í janúar áður en Covid kom til varðandi Landspítalann. Starfsfólk spítalans sagði að neyðarástand hefði verið á bráðamóttökunni. Það eru ekki mín orð heldur orð frá starfsfólki Landspítalans og það var fyrir Covid. Við höfum tölur um það hversu mikið lögreglumönnum hefur fækkað, við sjáum að mannekla er í kennarastéttinni, mikil eftirspurn er eftir sálfræðingum, félagsráðgjöfum o.s.frv. Þetta eru skynsamlegar aðgerðir sem styrkja þjónustuna gagnvart okkur sjálfum. Ég hef haldið þessa ræðu hundrað sinnum og er að reyna að brýna kollega mína til góðra verka um að fjárfesta í samfélaginu. Ég er ekki að gera það á kostnað einkageirans, eins og mér finnst sumir kollegar mínir í Sjálfstæðisflokknum tala um. Þetta eru ekki andstæðir pólar, einkageirinn þarf á hinu opinbera að halda og öfugt. Mér finnst þetta svo augljóst og við þurfum að gera bæði betra, eins og einhver sagði.

Í fjármálaáætluninni er of lítið gert í atvinnusköpun og fjárfestingum. Ég kem aðeins inn á það á eftir hversu máttlaust það er. Þegar menn tala um þennan mikla halla á ríkissjóði, yfir 300 milljarða, þýðir það ekki að verið sé að setja 300 milljarða í hitt og þetta. Halli ríkissjóðs kemur til af tvenns konar ástæðum. Tekjurnar hafa minnkað og gjöldin hafa hækkað, bara svo ég dragi það skýrt fram. Of lítið er tekið utan um þá hópa sem reiða sig á opinbera þjónustu eða greiðslur hvort sem það eru aldraðir, öryrkjar, sjúklingar, námsmenn, atvinnulausir eða fátækt fólk. Þetta eru ekki litlir hópar. Þetta eru stórir hópar sem ná varla endum saman. Þetta eru hópar sem við í þessum sal höfum ákveðið að eigi að lifa á 260.000 kr. eftir skatt á mánuði. Það er upphæð sem enginn í þessum sal treystir sér til að lifa á. Við búum í einu dýrasta landi í heimi og hljótum að geta gert betur varðandi þessa hópa. Ef við teljum okkur ekki hafa peninga til þess þá þurfum við að afla þeirra. Við tókum smásnerru hér í gær í þingsalnum til að draga fram eignaójöfnuðinn í samfélaginu. Hann er mikill. Ríkustu 5% Íslendinga eiga 40% af öllum hreinum eignum samfélagsins. Og þessi ríkustu 5% eiga yfir 2.000 milljarða í hreinum eignum. 2.000 milljarðar eru eins og tvenn fjárlög. Bara frá árinu 2010 hefur þessi hópur bætt eignastöðu sína um 1.000 milljarða, ein fjárlög. Þetta er að sjálfsögðu hópur sem getur lagt meira til og það er í gegnum skattkerfið. Þetta eru hin svokölluðu breiðu bök.

Peningarnir vaxa ekki á trjánum, eins og sumir hægri menn halda. Þeir verða til hjá fólkinu og fyrirtækjum. Ef við getum ekki fjármagnað almannatryggingar, ef við getum ekki tryggt að örorka þýði ekki bara fátækt eða að eldast þýði ekki fátækt eða getum ekki lyft 6.000 íslenskum börnum úr fátækt, þá þurfum við að afla tekna með sanngjarnara skattkerfi. Um það snýst pólitíkin í mínum huga, um skatta, eins óspennandi og það hljómar. Skattar eru það gjald sem við greiðum fyrir siðað samfélag, svo vægt sé sagt, og það er umræða sem við eigum að taka.

Hvernig fjármögnum við kerfið okkar? Ef við viljum fjölga hjúkrunarfræðingum eða lögreglumönnum þurfum við að fjármagna það. Ég er alveg óragur við að segja að ég er tilbúinn að fjármagna það með sköttum gagnvart þeim hópi sem hefur fjárráð til að mæta því. Ég er ekki að boða skattahækkanir í miðri kreppu, ég er bara segja: Þetta er grundvallarumræða sem við þurfum að taka og eigum stanslaust að vera að taka, þ.e. hvernig við ætlum að fjármagna kerfið. Og ef kerfin okkar eru vanfjármögnuð þá þurfum við að afla tekna. Við þurfum auðvitað að skapa verðmæti, við þurfum að vaxa upp úr kreppunni, við þurfum að hafa fleiri sprota og við þurfum að hafa fleiri störf. Störfum hefur fækkað mjög mikið á Íslandi út af þessari kreppu. Við sjáum að 20.000 manns eru atvinnulausir. Það er gríðarlega há tala. Samt er fjárfestingarátakið, það heitir það bókstaflega, fyrir næstu ár, þ.e. fjárfestingar- og uppbyggingarátak ríkisstjórnarinnar, einungis 1% af landsframleiðslu. Enginn hefur hrakið þessa tölu. 1% af landsframleiðslu fer í fjárfestingarátak til að mæta dýpstu kreppu í 100 ár. Það dugar ekki, herra forseti. Það þýðir ekki að slengja hallanum framan í mig aftur og aftur. Hann er vissulega mikill, en fjárfestingarátak upp á 30 milljarða, sem er 1%, er ekki nægjanlegt, herra forseti.

Við þurfum að búa til störf. Við þurfum að stuðla að fjárfestingargetu og viðspyrnu, ekki síst hjá einkaaðilum. Til þess þurfa þeir stuðning. Núna þurfa einkaaðilar stuðning hins opinbera. Nýsköpun, við notum öll það orð í þessum sal aftur og aftur. Við erum öll hrifin af nýsköpun, hljómar vel. Við erum með sérstakan nýsköpunarráðherra. En hver er staðan í nýsköpun? Ég veit að búið er að bæta aðeins í nýsköpun, ég ætla ekki að taka neitt sem er þó vel gert frá ríkisstjórninni. Ég ætla samt að gagnrýna það sem miður fer og ég reyni bókstaflega að brýna ríkisstjórnina til góðra verka. Við sjáum nýsköpunina, þróunina — nú er ég kominn í fjármálaáætlunina — en hver er hún?

Hér er ótrúlega áhugaverð tafla um 35 málefnasvið hins opinbera. Í henni sjáum við svo vel hvert við stefnum. Ég er alveg viss um að það mun koma öllum á óvart að framlög til nýsköpunar muni lækka um 30% á næstu fimm árum. Er það í samræmi við það sem fólk heyrir frá ráðherranum? Þetta eru óhrekjandi staðreyndir. Framlög til nýsköpunar og rannsókna lækka á árunum 2021–2025. Ég veit að búið er að bæta aðeins í árið 2021. Ég er ekki að leika mér að tölum. Af hverju höldum við þessu ekki? Af hverju er verið að draga úr nýsköpun þegar við ættum að vera að efla hana, ekki bara á næsta ári heldur næstu árin þar á eftir? Þetta eru ekki stóru tölurnar í samhenginu. Við erum með 1.000 milljarða. Nýsköpun í heild sinni fær 29 milljarða. Það vantar 5 milljarða til að fjármagna Tækniþróunarsjóð, sem er lykilsjóður á sviði nýsköpunar. Kannski er maður orðinn svona blindur á tölur, ég átta mig á því, herra forseti, en við höfum alveg efni á að setja 5 milljarða í Tækniþróunarsjóð til að fullfjármagna hann. Fyrirtæki og fólk sækir um styrki í Tækniþróunarsjóð en einungis 8% þeirra verkefna sem fóru til Nýsköpunarsjóðs voru fjármögnuð síðastliðið sumar. Af hverju fullfjármögnum við ekki Tækniþróunarsjóð? Hann býr til pening. Sumt mun kannski ekkert virka, sprotar og nýsköpun er þannig, en eitthvað mun virka, eitthvað mun vaxa og búa til skatttekjur og störf á móti. Til þess er leikurinn gerður. Þetta er svona klassískt dæmi. Þetta rennur til einkaaðila, herra forseti. Það rennur ekki til hins opinbera. Þetta fer í sjóðinn sem styrkir styrkhæf verkefni. Samt er tillaga okkar, frá Samfylkingunni og öðrum flokkum, um að fullfjármagna Tækniþróunarsjóð ítrekað felld, svo að ég taki það sem dæmi. Lækkunin til nýsköpunar og rannsókna á næstu fimm árum er því dapurleg. Ég er alveg viss um að hún er ekki í samræmi við alla þá blaðamannafundi sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar halda. Það er alltaf verið að segja að við séum svo dugleg í nýsköpun. En við erum bara ekkert dugleg í nýsköpun. Við getum a.m.k. verið duglegri, ekki síst á þessum tíma.

Ég vil nefna annan málaflokk sem snertir líka framtíðina, umhverfismálin og loftslagsmálin. Hver einasti stjórnmálaflokkur talar núna af mikilli innlifun um þann málaflokk. Þetta er málaflokkur framtíðarinnar. Við sjáum að ríkisstjórnir í öllum löndum eru að taka þessi mál miklu fastari tökum en áður. Við fengum fjármálaáætlunina í október. Svo er búið að halda marga blaðamannafundi hjá ríkisstjórninni um að uppfæra loftslagsmarkmiðin, innspýtingu í umhverfismál og nú síðast skrifar forsætisráðherra grein um að hækka markmiðið um að draga úr loftslagsmengun. Gott mál. Ég tek undir það. Verum metnaðarfull í loftslagsmálum, verum í fararbroddi. Við erum enn að elta Evrópusambandið og Dani og fleiri þjóðir hvað þetta varðar, en gott og vel. En þrátt fyrir öll þau fögru orð og stórar yfirlýsingar í umhverfis- og loftslagsmálum, hvað segja þá tölurnar, herra forseti?

Eitt sinn var sagt í stjórnmálum „follow the money“, með leyfi forseta, eltum peningana. Það hef ég einmitt gert. Ég hef elt peningana, fer í þessa yndislegu töflu sem ég hef hér við hliðina og þá sé ég nákvæmlega hvað hefur breyst í haust frá því að þessi áætlun var lögð fram og þar til nú þegar kemur að umhverfismálum, miðað við allar yfirlýsingarnar um græna atvinnuuppbyggingu, græna byltingu, átak í þessu, og allt sem lýtur að grænu og vænu. Breytingin, takið eftir því, yfir haustið, frá októberplagginu yfir í desemberplaggið, í umhverfismál fyrir næsta ár er 0,3%. Aukningin er — ég er ekki að tala um 0,3% af landsframleiðslu — 83 milljónir fyrir næsta ár í umhverfismál. Er þetta ekki eitthvert grín? Og vitið þið í hvað mig grunar að þessar 80 milljónir fari? Ég held að það séu 80 milljónirnar sem renna til minkabænda vegna þess að það var sett undir umhverfismál. Svo er aðeins aukið í, en hver er aukningin? Fyrir árið 2022 er aukningin í umhverfismál 1,2%. Aukningin fyrir 2023 er 1,8%, aukningin fyrir 2024 er 2,5% og svo er aukningin á síðasta árinu 3,5%. Finnst fólki þetta í alvöru bera vott um metnað í umhverfismálum? Umhverfismál kosta peninga. Orð eru ódýr. Það er mjög ódýrt að segja: Já, við ætlum að vera græn. Hvað segja tölurnar okkur? Þær segja að við séum ekki græn. Við erum enn þá grá, herra forseti. Ef ég tek þetta allt saman, sem fer í umhverfismál 2021 og umhverfismál 2025, þá er aukningin 1,9 milljarðar. Er það mikið eða lítið? Það er sáralítil hækkun. Það er 0,1% af landsframleiðslu. Á næstu fimm árum er aukningin í umhverfismál 0,1% af landsframleiðslu, eða minna, talsvert minna meira að segja. Það sýnir ekki græna byltingu, herra forseti. Það sýnir bara eitthvað allt annað.

Fyrst menn voru að uppfæra töfluna núna, menn uppfærðu fjármálaáætlunina, þá hafa menn sagst ætla að gera þetta seinna. Það finnst mér afskaplega billeg rök því að nýbúið er að uppfæra þessa fjármálaáætlun. Gott og vel, ef menn gera það seinna fagna ég því. En af hverju er það ekki gert núna? Við erum að uppfæra ansi marga aðra málaflokka.

Ég ætla ekki að kæfa fólk í tölum, en ef við lítum á heildina sem fer í umhverfismál á fjárlögum er það minna en 1% af landsframleiðslu. Það er mikið af 1% úti um allt, 1% af landsframleiðslu fer til umhverfismála. Ef ég tek annan mælikvarða, þ.e. fjárlögin, landsframleiðslan er 3.000 milljarðar, fjárlögin eru 1.000 milljarðar, ef við tökum hlutdeild umhverfismála, bara allra, af fjárlögunum eru það 3%. Það finnst mér ekki nægilegt, ég veit að þetta hefur verið að aukast. Þetta hefur verið að aukast hægt og rólega í öllum löndum. Umhverfismálin voru nánast ekki til fyrir nokkrum árum. 97% af fjárlögum fara í eitthvað annað. Ég vil flagga þessu.

Við sjáum að framlög til nýsköpunar, sem er svona lykilmálaflokkur til framtíðar, lækka um 30% á fimm árum. Umhverfismálin hækka um 7,7%. Skoðum önnur málefnasvið. Þetta er alveg yndisleg tafla. Hér er málefnasvið sem heitir hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta. Skoðum töfluna, hvað þar er að gerast. Við erum alltaf að tala um framtíðina, við erum að tala um framtíðarsýn þessarar ríkisstjórnar ef hún heldur völdum, en það málefnasvið stendur í stað. Það finnst mér áhugavert því að við heyrum ekki annað en að þjóðin sé að eldast og úrræðin eru oft að verða dýr. En það er nánast sama tala sem fer til hjúkrunarmála árið 2021 og 2025. Þar er meira að segja lækkun, sem ég skil reyndar ekki, en það er örlítil lækkun. Er þetta ekki líka alveg þvert á það sem við höfum verið að heyra um að hér sé uppbygging í hjúkrunarheimilum í miklum forgangi?

Mig langar að nefna annan málaflokk, samgöngumál, sem margir í þessum sal hafa mikinn áhuga á. Hvernig er þróunin þar? Þar er 30% lækkun á fimm árum þrátt fyrir mikla þörf. Annar málaflokkur finnst mér áhugaverður, menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál. Þetta er ekki stærsti pósturinn sem við erum að eiga við hér. En hvað er að gerast þar? Þetta er málefnasvið 18, skoðum það. Hver er þróunin þar? Það er svo mikil pólitík í þessari töflu. Lækkunin nemur 7%, verið er að lækka fjárframlög til menningar, lista, íþrótta- og æskulýðsmála. Ástæðan fyrir því að ég flagga þessu og tala um þetta er að ég held í alvörunni að það komi fólki á óvart. Það kemur jafnvel þingmönnum á óvart hver þróunin er hér.

Svo að ég taki það fram er vissulega hækkun í sumum málaflokkum og ekki verið að lækka alla málaflokka. Ég er bara að taka þá málaflokka fyrir þar sem ætti sérstaklega að hækka framlög. Nýsköpun ætti að hækka, menningin ætti að hækka, hjúkrunarþjónusta ætti að hækka. Við sjáum að framhaldsskólarnir hafa verið að fá einhver framlög núna út af Covid, sem er gott og blessað, en síðan fletjast framlög út, þeir fá sömu krónutölu liggur við næstu fimm árin. Ég veit ekki hversu mikil sókn það er.

Húsnæðisstuðningur er sér málefnasvið, þar er 14% lækkun. Framlög í flokki lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála lækka um tæplega 20% á næstu fimm árum. Nú er ég búinn að nefna átta málaflokka sem fá lækkun, oft umtalsverða lækkun eða standa í stað eða fá a.m.k. ekki þá hækkun sem ráðherrarnir tala iðulega um. Auðvitað fá önnur svið hækkun. Fólk getur bara skoðað það. Það sem ég bendi á er að þróunin í framlögum til lykilmálaflokka er afskaplega sérkennileg. Það er bara mjög áhugavert að sjá hvernig þetta er að þróast því að fjármálaáætlunin er lykilplagg í öllu sem við erum að ræða hér.

Síðan kemur aðhaldskrafan fram í áætluninni. Ég er nú búinn að segja það áður, kannski er ég alltaf að halda sömu ræðuna, en allt í lagi. Af hverju er sérstök aðhaldskrafa á sjúkrahús og skóla? Samkvæmt þessu nemur uppsöfnuð lækkun á framlagi ríkisins 17 milljörðum á tímabilinu. Ég skil kannski að menn vilji hafa einhverja aðhaldskröfu til að ná fram einhverri hagræðingu, betri nýtingu og öðru slíku, gott og vel, menn geta haft þá skoðun. En ég skil ekki, herra forseti, af hverju á næsta ári og næstu tveimur árum er haldið í þessa sérstöku aðhaldskröfu gagnvart heilbrigðisstofnunum, öldrunarstofnunum og skólum. Það er ekki hægt að segja að krafa sé um aðhald í öllu. Það er ekki aðhaldskrafa hjá öllum stofnunum, t.d. er ekki aðhaldskrafa á næsta ári hjá dómstólum. Það sem er eiginlega enn sérkennilegra, herra forseti, er að aðhaldskrafa á sjúkrahús dettur niður eftir tvö ár. Hefðu menn ekki átt að gera það kannski öfugt, sleppa aðhaldskröfunni í dag og innleiða hana eftir tvö ár þegar betur gengur, ef menn eru hrifnir af svona flötum aðhaldsaðgerðum?

Við í fjárlaganefnd gagnrýndum harðlega að Landspítalinn ætti að vinna upp halla sinn, 4 milljarða kr., sem þarf að vinna upp með hagræðingaraðgerðum og skertri þjónustu. Það var virkilega ánægjulegt sem ég sá í fréttum í morgun að nú hefur verið ákveðið — ég ætla bara að leyfa mér að segja eftir ötula baráttu okkar í Samfylkingunni og fleiri — að Landspítalinn þurfi ekki að vinna upp þann halla. Það eru ánægjuleg tíðindi. Ég held að Landspítalinn hafi nóg á sinni könnu þó að hann þurfi ekki að fara að vinna upp einhvern eldgamlan halla og skera niður þjónustu. Gott mál. Ég held að þetta sýni að stjórnarandstaðan getur stundum gert eitthvert gagn með því að æpa sig hása og kalla eftir betri ákvörðunum.

Annað sem ég ætla að draga fram er niðurskurðurinn eða hagræðingaraðgerðir, eða eins og það kallast hér, eftir tvö ár, afkomubætandi ráðstafanir. Það er kannski svolítið kerfiskarlalegt orðalag yfir niðurskurð, aðhald eða skattahækkanir. Þetta er eitthvað sem er gagnrýnisvert því að þetta þarf ekki að gerast eftir tvö ár. Það gerist eftir tvö ár ef við kjósum þessa flokka og fáum sömu ríkisstjórn yfir okkur, en þarf ekki að gerast ef fólk er tilbúið að kjósa eitthvað annað næst, kýs flokka sem eru kannski tilbúnir að draga það lengur að greiða niður þennan halla. Það skiptir máli.

Herra forseti. Í því sambandi langar mig aðeins að nefna eitt vegna þess að ég hef séð auglýsingar frá Sjálfstæðisflokknum um að þeir þar séu búnir að standa sig svo vel í að greiða niður skuldir og þess vegna séu þeir í svo góðum málum að takast á við afleiðingar af Covid. Mig langar aðeins að rifja eitt upp af því að ég þekki söguna ágætlega: Jú, búið var að greiða niður skuldir ríkisins, gott mál. En af hverju gerðist það og hvernig gerðist það að stærstum hluta? Það sem gerðist var að við fengum svokölluð stöðugleikaframlög eftir bankahrunið sem voru langstærsti pósturinn sem fór í niðurgreiðslu skulda. Af hverju fengum við stöðugleikaframlög frá erlendum kröfuhöfum? Það var vegna þess að við settum erlenda kröfuhafa undir svokölluð litlu neyðarlög, nú er ég kominn að smá söguskýringu. Sett voru önnur neyðarlög í mars 2009, ég man það, ég var á þingi þá, sem gerðu kleift að erlendir kröfuhafar festust hér í höftum. Síðan voru þeir tilbúnir að fara úr höftunum með því að greiða okkur stöðugleikaframlög og þau fóru í niðurgreiðslu skulda. Og ég ætla að rifja það upp að þegar sú ákvörðun var tekin í þessum sal að setja erlenda kröfuhafa í bankahruninu undir höft, vitið þið hvaða flokkur greiddi atkvæði gegn því? Það var Sjálfstæðisflokkurinn. Ég er ekki að grínast. Hann greiddi atkvæði gegn því að setja erlenda kröfuhafa undir höftin sem aðrir kröfuhafar voru settir undir. Framsóknarflokkurinn sat hjá í þeirri atkvæðagreiðslu. Þetta er mikilvægt og Sjálfstæðisflokkurinn er kannski ekki að stæra sig af því í auglýsingum sínum þegar hann er að hrósa sér fyrir að hafa greitt niður skuldir svo hratt og þess vegna séum við í svo góðum málum að geta tekist á við Covid. Þetta er bara smá söguupprifjun um hvernig þetta kom til. Ég get alveg hrósað Sjálfstæðisflokknum fyrir það sem hann á skilið en þarna skiptir samhengið ansi miklu máli. Það er bara mjög áhugavert að skoða hvað gerðist í Sjálfstæðisflokknum árið 2009 eða 2010 þegar litlu neyðarlögin voru sett og hann greiddi atkvæði gegn því, því að það var svo augljóst að auðvitað áttum við að setja erlendu kröfuhafana undir höftin líka. Það skapaði okkur samningsstöðu um stöðugleikaframlögin sem urðu að veruleika nokkrum árum seinna.

Herra forseti. Þá glittir í niðurskurð eða afkomubætandi ráðstafanir eftir tvö ár. Ég hef áhyggjur af því hvaða hópar verði fyrir barðinu á því. Það eru auðvitað þeir hópar sem reiða sig á opinbera þjónustu. Það er fátækt fólk, öryrkjar, eldri borgarar, námsmenn o.s.frv., jafnvel sjúklingar. Þetta eru hóparnir sem reiða sig á hið opinbera, á velferðarkerfið. Við þurfum að hlífa þeim. Við þurfum ekki að hlífa fjármagnseigendum, þeir sjá um sig sjálfir, þeir sjá svo vel um sig að við sjáum aftur og aftur ákvarðanir sem hér eru teknar sem þjóna þeim sérstaklega. Í gær var ákveðið að lækka fjármagnstekjuskattinn með hækkun frítekjumarks. Ég nefndi áðan að 1% ríkustu Íslendinga aflar 35% allra fjármagnstekna. Ef við stækkum þetta, höfum það 5% ríkustu Íslendinganna, þá afla þeir 50% fjármagnsteknanna, þannig að öll lækkun á fjármagnstekjuskatti kemur þeim hópi til góða.

Svo komu sérkennilegar og skrýtnar skattalækkanir í vor. Þá lækkaði ríkisstjórnin sérstaklega stimpilgjöld hjá fyrirtækjum sem kaupa stór skip. Ég get alveg stutt skattalækkanir, eins og tryggingagjaldið, og við höfum meira að segja lagt fram tillögu um lækkun tryggingagjalds. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði gegn henni. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki öskrað á okkur sem erum vinstra megin og sagt að við viljum bara hækka skatta. Við viljum hækka suma skatta en lækka aðra. Hvernig stendur á því að Sjálfstæðismenn geta alltaf komist upp með að spila þá rullu að þeir séu eini skattalækkunarflokkurinn? Hann er það bara ekki. Sýndarmennskan er alger þegar kemur að þeim málaflokki. Flokkurinn lækkar skatta hjá þeim sem hafa mest. Veiðileyfagjaldið er enn í umræðu. Ég ætla ekki að eyða þeim fáu sekúndum sem eftir eru í að tala um veiðileyfagjaldið í hundraðasta sinn.

Mig langar að draga þetta fram og það er ágætt að fólk sjái muninn á þessum flokkum, Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni, og svo Samfylkingunni og Framsókn og Vinstri grænum. Það er auðvitað munur á okkur. Við erum ekki eins, og við teljum lausnirnar vera öðruvísi og reynum að takast málefnalega á um það. Vinstri hægri, áfram og afturábak, þetta eru lifandi hugtök. Það er fullkomlega eðlilegt að við tökumst aðeins á.

Auðvitað veit ég að hver einasta sál í þessum sal vill Íslandi vel. Að sjálfsögðu viljum við það. Ég hef sagt það áður að við erum lítil og fámenn þjóð. Við erum það fámenn að meira að segja í dag fæðast jafn margir í heiminum og búa á Íslandi. Svo fæðist íbúafjöldi Íslands líka á morgun o.s.frv. Við þurfum að komast aðeins upp úr þessum skotgrafahernaði og þrætubókarlist sem við erum öll sek um, ég örugglega þar á meðal, ekki síst á tímum neyðarástands því að nú ríkir neyðarástand. Ég veit að sumir í þessu ástandi hafa það jafnvel betra en áður, en mjög margir hafa það virkilega slæmt, ekki síst hinir atvinnulausu, í umhverfi þar sem nánast enga vinnu við hæfi er að finna. Það er því sérkennilegt að við getum ekki náð saman um að hækka atvinnuleysisbætur enn meira, eins og við höfum ítrekað lagt fram, eða leyft að breytingar á atvinnuleysistryggingum nái til fólks sem verður atvinnulaust í febrúar, eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir þreytist seint á að benda á.

Þetta eru allt mál sem við hefðum getað náð saman um og verið samferða við að búa til samfélag þar sem enginn er skilinn eftir, samfélag þar sem við látum þúsund sprota vaxa, samfélag þar sem ríkisfjármálum er beitt af myndarlegri hætti gagnvart sveitarfélögum, hópum um nýsköpun og umhverfismálum, þar sem við tökum höndum saman um græna atvinnuuppbyggingu, höfum eitthvert plan, efnahagsplan, um hvernig hægt er að komast upp úr þessu, ekki bara bíða eftir að túristinn komi aftur til Íslands. (Forseti hringir.) Við þurfum að vera metnaðarfyllri hvað þetta varðar, vera svolítið stórhuga og vera meira samferða, herra forseti.