151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef bara, í ljósi orða forseta, mjög gaman af skensi hæstv. forseta á samfélagsmiðlum, svo að það komi fram hér. Það sem mig langar að segja varðandi nýsköpunarmálin er: Já, hér hefur verið bætt í nýsköpun á undanförnum árum. Ég fagna þessum 2,9 milljörðum sem fara í að auka endurgreiðslu vegna þróunar- og rannsóknarkostnaðar. Ég held að það hafi verið ein af tillögum okkar í upphafi kjörtímabilsins. Gott og vel. En það sem ég var að gera í ræðu minni var að líta til framtíðar. Það er óneitanlega þannig, og ég sé að hv. þingmaður er með þessa elskulegu töflu fyrir framan sig, að þróunin er niður á við, það er það sem ég er að gagnrýna, í nýsköpun af öllum málaflokknum. Hv. þingmaður sér að hún er niður á við um 30%. Það er það sem ég er að gagnrýna. Ég skil ekki, af því að þetta eru ekki stærstu tölurnar, að nýsköpunarmálin séu að fá mikið högg eða bara niðurskurð árin 2023, 2024 og 2025. Það er það sem ég er að gagnrýna.

Ég gagnrýndi sérstaklega að okkur vantar pening í Tækniþróunarsjóð. Af því að hv. þingmaður nefndi að endurgreiðslufyrirkomulag varðandi rannsóknarstyrkina hefði virkað þá hefur Tækniþróunarsjóður líka virkað. Hann er vanfjármagnaður um 5 milljarða samkvæmt sjóðnum sjálfum. Af hverju tökum við ekki bara höndum saman og ákveðum 5 milljarða á morgun? Við getum gert það. Ríkissjóður fer ekki á hausinn, hann er nú þegar í svo miklum mínus að það sér ekki högg á vatni en þessir 5 milljarðar gætu orðið 50 eftir einhver ár. Veðjum á nýsköpunina, veðjum á kvikmyndageirann. Ég nefni það nú iðulega þegar ég í andsvari við hv. þingmann. Af hverju tökum ekki þannig skref? Fjárfestum í okkur sjálfum. Stundum þarf að eyða pening til að búa til pening og nýsköpun er dæmi um það. Ég er ekkert að gera lítið úr því sem gert hefur verið. Ég er að benda á það sem betur má fara. Taflan er nöturleg þegar kemur að nýsköpun. Hún er niður á við. Það er ekki tilfinning fólksins úti við (Forseti hringir.) ef hlustað er á yfirlýsingar ráðherra.