151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:17]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að setja mig aðeins í spor kjósanda Pírata sem hefur hlustað á fulltrúa Pírata flytja 30 mínútna ræðu um fjármálaáætlun. Þá hlýtur kjósandinn að hugsa með sér: Hvaða stefnu hefur þessi flokkur sem ég var að kjósa þegar verið er að ræða um fjármálaáætlun, þessi stóru pólitísku áhersluatriði? Þetta var 30 mínútna ræða um form, um tæknileg atriði. Það var eitt örlítið efnislegt atriði sem hægt var að skynja að væri einhver stefna í. Það var þegar hv. þingmaður þakkaði Pírötum fyrir að svona mikil áhersla væri lögð á nýsköpun. Að öðru leyti er ég engu nær sem kjósandi Pírata fyrir hvað þau standa. Hvað sjá þau fyrir sér? Hver er stefna þeirra í öllum stóru málunum, í atvinnumálum o.s.frv.?

Svo er annað atriði sem ég vil spyrja hv. þm. Björn Leví Gunnarsson um. Hann minntist á Nýsköpunarmiðstöðina, stjórnsýslubatterí sem kostaði hvað, 700 millj. kr. á ári, hátt í milljarð. Það að hún skuli lögð niður og þeir fjármunir sem kosta að reka hana eigi að fara beint í nýsköpunarverkefni segir honum ekki neitt af því að það eru ekki gögn um það. Við vitum hvaða útgjöld sparast ef við leggjum niður stofnun. Og ef við setjum það beint í verkefni þá þarf engin gögn um það. Það blasir bara við, hv. þingmaður, nema við búum eitthvert annað kerfi til og aðra stofnun í kringum þá peninga sem við ætlum að setja í nýsköpun. En það er auðvitað ekki hugsunin.