151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir prýðisræðu. Ég get svo sem tekið undir margt, sér í lagi þegar kemur að skilvirkni og áherslu á forgangsröðun í ríkisfjármálum. Hv. þingmaður kom í upphafi ræðu sinnar aðeins inn á vinnu nefndarinnar og ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að það væri æskilegt að við hefðum meiri tíma til að vinna við fjármálaáætlun og ég tala nú ekki um á milli endurskoðunar eða stefnumörkunar, áætlunargerðar og svo fjárlaga í þessu hringrásarferli stefnumörkunarinnar. En stundum eru tímarnir nú bara þannig að við verðum að bregðast við aðstæðum eins og þær eru. Alþingi ákvað í júní að fresta fyrsta samkomudegi og ýta þessum málum öllum á undan vegna þess að það var eiginlega svo mikil óvissa og horfumst bara í augu við að það var allt að því ógerlegt. Það voru í raun og veru engar áætlanir til að byggja á, þ.e. efnahagsspá fyrst og fremst. Það var mikil óvissa en það afsakar ekki neitt. Ég held hins vegar að hv. fjárlaganefnd hafi lagt sig alla fram, m.a. hv. þingmaður sem er afar vinnusamur svo að ég segi það nú bara hér, og að öll nefndin hafi tekið aðstæðum af miklu æðruleysi og unnið vel á þessum knappa tíma.

Ég vil aðeins koma að áætluninni. Hv. þingmaður sagði að hún yrði fljótlega úreld. Því er ég gersamlega ósammála vegna þess að í þessari áætlun eru mjög mikilvægir þættir sem hv. þingmaður samsinnti, m.a. að það komi skýrt fram hvenær við þurfum að stöðva skuldasöfnun þegar kemur að grunngildum um sjálfbærni og hvenær stjórnvöld og Alþingi ákveða að virkja aftur (Forseti hringir.) fjármálareglur laga um opinber fjármál. Þetta er afar mikilvægt. (Forseti hringir.) Þetta verður ekki tekið úr þessari áætlun.