151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:32]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hægt er að velta sér upp úr ýmsu í þessum ræðustól en stóra myndin er einfaldlega þessi: Það sem hefur verið gert á undanförnum árum er það að sjö góð ár voru nýtt til að búa sig undir sjö mögur ár. Það er skynsamleg fjármálastjórn. Það er ekki sjálfgefið, virðulegi forseti, að við séum í þeirri stöðu að geta haldið uppi því sem haldið er uppi núna og fjárfest til framtíðar. Þeir sem tala hér hátt og gagnrýna eru þeir sömu og eru hér hinum megin við Vonarstrætið, sem söfnuðu skuldum þessi sjö góðu ár og eiga því ekki til mögru áranna og það er alveg svakalega vond frétt fyrir okkur Reykvíkinga. (Forseti hringir.) Þeir eru ekki í neinni stöðu til þess að gagnrýna hér á þessum stað.