151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:35]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég óttast þvert á móti, þvert á orð hæstv. forsætisráðherra, að við náum ekki þeirri viðspyrnu sem við þurfum inn í langa framtíð með þessari fjármálaáætlun. Ýmislegt er ágætlega gert en hér eru hins vegar vitlausar áherslur og vitlaus forgangsröðun. Við eigum allt okkar undir því að auka fjölbreytni atvinnulífsins og reisa enn styrkari stoðir undir nýsköpun, að við notum heilann betur og þess vegna þyrftum við auðvitað að setja miklu meira í nýsköpun, menntun og auðvitað loftslagsmálin.

Og af því að hér talaði hæstv. ráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson um að sjö góðu árin hafi verið notuð til að búa sig undir sjö mögru árin þá ætti hæstv. ráðherra kannski að tala við það fólk sem naut ekki góðærisins og þarf núna að fara inn í enn meiri fátækt og kreppu á mögru árunum, þvert á það sem þau hafa hins vegar gert hinum megin við Vonarstrætið sem hafa þó reynt að fjárfesta í fólki.