151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:46]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Þessi fjármálaáætlun er auðvitað í eðlilegu samræmi við fjárlögin. Hér er sýnt fram á hvernig við beitum ríkisfjármálum, góðri stöðu, til margra góða verka. Vissulega væri gott að geta gert enn meira en við verðum að átta okkur á því að við erum að taka fé að láni. Í þessum tillögum birtist m.a. aukning í samgöngumál sem gerir það að verkum að fyrri samþykkt Alþingis um samgönguáætlun sem samþykkt var hér fyrir allnokkru, er þá miklu nær fjármögnun sinni. Þarna eru fjármögnuð fullkomlega ný verkefni sem menn á Alþingi hafa talað fyrir í sambandi við hafnarframkvæmdir, til að mynda framkvæmdir við Þorlákshöfn, Njarðvík og Ísafjörð. Einnig er verið að setja verulegt fjármagn í vegi fram í tímann til að geta staðið við þá frábæru samgönguáætlun sem hér var samþykkt. Þessi fjármálaáætlun sýnir að við getum gert þetta.