151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:47]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp og fagna mörgu góðu sem er hér. Sérstaklega vil ég taka undir með hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um aukin framlög til samgöngumála. Tekið er fram að þetta séu framlög til hafnar- og vegaframkvæmda, sem byggist á töluliðum umhverfis- og samgöngunefndar, auk framlags vegna Egilsstaðaflugvallar. Tillögurnar um hafnarframkvæmdir hafa verið samþykktar hér áður, eins og komið var inn á, eins og höfnin í Þorlákshöfn, sem er gríðarlega mikilvæg framkvæmd. Við verðum að fara af stað til að fjárfesta okkur út úr þeim efnahagsþrengingum sem við erum í núna, skapa aukin umhverfisvæn atvinnutækifæri og tengja okkur við meginlandið. Þetta er því mjög mikilvægt sem og að aðrar áætlanir okkar í samgöngumálum nái fram að ganga. Ég fagna þessu.