151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[11:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil nú segja að samfélagið getur stundum verið grimmt, sérstaklega þegar einelti er annars vegar, eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel og lýsti hér með mjög áhrifamiklum hætti í ræðu sinni áðan. Í þeim gögnum sem ég var að vitna í úr læknablaði Harvard-háskóla kemur fram að það vanti gögn til að gera langtímarannsóknir á viðfangsefninu, þ.e. að áhættuna af skurðaðgerð sé ekki hægt að mæla af þeim sökum. En það sé heldur ekki hægt að mæla kosti þess að bíða með aðgerð á móti því að barn fari í aðgerð. Auk þess segja þeir að það sé óljóst hvort þeir sem sagt hafa frá reynslu sinni opinberlega segi frá reynslu sem flestir trans einstaklingar hafa frá að segja. Það vitum við ekki, þannig að mér finnst þetta mjög athyglisverður punktur, þ.e. að það vanti gögn. Þá spyr maður sig: Hafa menn nægileg gögn til að setja svona lög eins og hér stendur til að setja? Ég held að það sé alveg full ástæða til að velta því fyrir sér, vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að menn hafi góðar niðurstöður úr rannsóknum. Þetta snertir einstaklinginn náttúrlega (Forseti hringir.) og getur skipt þann verulegu máli, sem í hlut á, sem lögin snúa að. Þegar gögnin vantar, (Forseti hringir.) eru menn þá ekki komnir aðeins á undan sér?