151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins í sambandi við fjöldann, þá hefur gætt misskilnings í umræðunni varðandi samninginn við Pfizer. Þar liggur fyrir að við höfum tryggt okkur 170.000 skammta, þ.e. bóluefni fyrir 85.000 manns. Það liggur fyrir. Samningurinn snýst ekki um það hvenær efnið er afhent heldur magn efnisins. Það hefur ekki breyst. Það sem breytist síðan er það hversu hratt efnið kemur, og ekki bara til Íslands heldur til allra Evrópulanda.

Það vakti athygli og vekur athygli, ef hv. þingmaður kíkir á evrópskum miðlana, sem er að gerast núna, að þessi fyrsti skammtur, sem eru 10.000 skammtar til Íslands, er jafn stór til allra Evrópuríkja, óháð fjöldanum sem þar býr. Við komum því hlutfallslega vel út úr því að fyrsti skammturinn er 10.000 í öllum þessum löndum. Síðan tekur við áætlun þar sem afhendingarnar taka mið af íbúafjöldanum í hverju landi og var í raun og veru bara verið að ganga frá því í morgun.

Samtals tryggja samningar við þrjá framleiðendur — þar sem við erum að tala um Pfizer, AstraZeneca og Jansen, þeir samningar eru á lokastigi — bóluefnaskammta fyrir alla landsmenn. Þannig að við erum í raun og veru í viðræðum eða búin að ljúka samningum umfram það sem við þurfum í raun. Það sem er óvissa um og mun verða óvissa um áfram er það hversu hratt og í hversu stórum skömmtum efnið kemur til landsins.

Hagsmuna Íslands er mjög vel gætt. Við erum við borðið ásamt Norðmönnum og höfum verið líka í tvíhliða samskiptum við Svía. Við höfum talið það mikilvægt og það hefur gefist okkur vel til þess að tryggja að hagsmunir okkar séu jafn vel varðir og hvers og eins ríkis í Evrópusambandinu. Þannig líta þessi gögn út í dag og með þeim hætti höfum við gætt hagsmuna Íslands eins vel og við getum í þessu mikilvæga máli.