151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að nefna að nákvæmlega þessi staða sýnir okkur hversu mikilvægt það er að við séum með virka hagsmunagæslu innan Evrópusambandsins, að við séum við borðið þegar ákvarðanir eru teknar. Þrátt fyrir þessi orð hæstv. ráðherra um að við sitjum við sama borð er eitthvert annað ríki að tala máli okkar þarna úti, sem ég tel vera miður, enda erum við sjálfstætt, fullvalda ríki.

Lyfjaframleiðandinn gaf frá sér yfirlýsingu í gær og sagði að það væri af og frá að einhver vandkvæði væru við framleiðslu bóluefnisins. Milljónir skammta væru til reiðu og þegar hefðu t.d. 2,9 milljónir skammta verið afhentar bandarískum heilbrigðisyfirvöldum.

Þá get ég ekki sleppt því að minnast á orð sérfræðinga, en áðurnefndur Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði, með leyfi forseta:

„Það er mikilvægast af öllu að gera þetta hratt, koma efninu sem fyrst inn svo það byrji að virka.“

Þá velti ég fyrir mér, að með því að mjatla þessu svona hægt inn, 10.000 skammtar fyrst, svo 3.000 á viku, (Forseti hringir.) náum við kannski 50.000 skömmtum í lok mars og þarf hver og einn að fá tvo skammta, mæta tvisvar sinnum í bólusetningu. (Forseti hringir.) Það er ekkert sérstaklega hratt, herra forseti. Mun þetta bitna á gæðum bólusetningar og árangri?