151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:16]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin. Hér er vitaskuld enginn að ætlast til töfralausna og minn flokkur hefur verið skýr um það að styðja við framgang allra þeirra mála sem geta losað okkur út úr þeirri skelfilegri stöðu sem þjóðin er í, engin krafa um töfralausnir. Krafan er hins vegar sú, og afdráttarlaust sú, að hæstv. ráðherra, og ríkisstjórnin, sé bæði skýr og raunhæf í svörum. Óvissan held ég að sé okkur jafnvel dýrari og verri en erfið svör. Það þarf skýr svör og þau eru því miður ekki hér. Hvað þýða 3.000 skammtar á viku fyrir efnahag þjóðar? Hvað þýðir það að upplýsingar um dreifingu liggi ekki nægilega vel fyrir? Að teknu tilliti til óvissunnar held ég að gera þurfi þá kröfu til ráðherrans að hún eigi það samtal við þjóðina og leggi aðgerðir á borðið. Erum við mögulega í þeirri stöðu að við fáum ekki skýrari leiðsögn um þetta? Af því að mér finnst ráðherra vera að staðfesta það hér í svörum sínum að hún eigi ekki svörin. (Forseti hringir.) Erum við mögulega að sjá fram á að við verðum með óbreyttar sóttvarnaaðgerðir fram á haust, (Forseti hringir.) jafnvel út árið 2021?