151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það var algjör nýlunda þegar við byrjuðum á tvöfaldri skimun á landamærum og fórum í það að skima fyrst, fólk væri í sóttkví í fimm daga og færi svo aftur í sýnatöku. Það reynist hafa verið afar skynsamleg nálgun. Við erum að reyna eins og við getum að koma í veg fyrir að smit berist inn til landsins enda hefur fjöldi smita greinst við skimun á landamærum, bæði í fyrsta og annað skipti. Það er algerlega óraunhæft að tala um að loka landinu alveg og ég held að það hafi aldrei verið í alvöruumræðu. Við værum þá væntanlega að tala um að við vildum ekki fá börnin okkar heim sem væru í námi erlendis o.s.frv. Ísland er náttúrlega nútímaríki og við erum í miklum samskiptum milli landa. Við völdum þessa leið og ég held að hún hafi verið afar skynsamleg.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um mismunandi eðli þessara bóluefna. Þau eru fleiri en þrjú, við eigum í viðræðum við sex mismunandi framleiðendur. Allt sem varðar eðli efnanna, öryggi, geymslu, skilyrði o.s.frv. mun verða með mismunandi hætti. Það sem ég legg áherslu á í því efni er að allar upplýsingar séu uppi á borðinu. Það er síðan verkefni sóttvarnalæknis að forgangsraða hópum inn í bólusetningarnar eftir því sem efnin koma til landsins.