151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta og þinginu öllu fyrir tækifærið til að fá að eiga orðastað við þingið og til að, hvað á ég að segja, gefa stöðuskýrslu um þessi mál sem eru á fullri ferð. Öll samfélög bíða í ofvæni eftir því að fá upplýsingar um hvenær og hversu mikið efni kemur til viðkomandi lands.

Virðulegi forseti. Ég verð samt að segja í þessari umræðu að lykilatriðið er að Ísland hefur tryggt sér nægilegt magn bóluefnis fyrir okkur öll. Það er staðreynd. Allur heimurinn vill fá allt efnið strax. Það er líka staðreynd. Og það er líka staðreynd sem skiptir máli í því samhengi að iðnríki heims, sem eru í forystu efnahagslega og að því er varðar innviði, hvort sem er heilbrigðiskerfi, upplýsingar, lýðræðisuppbygging o.s.frv., hafa verið gagnrýnd af Sameinuðu þjóðunum þegar slík viðhorf verða ofan á. Við verðum í ljósi stöðu okkar að vera meðvituð um að allur heimurinn bíður, ekki bara við, heldur bíður hvert einasta mannsbarn eftir að fá bólusetningu við Covid-19. Við erum partur af þeirri heildarmynd. Við höfum skyldur hvert gagnvart öðru en líka gagnvart samfélagi mannkynsins. Þannig er það. Við búum hér við sterka innviði, við búum við gott heilbrigðiskerfi, við búum við upplýsingar og fámennt og öflugt samfélag. En við búum líka yfir einstökum sveigjanleika, seiglu og úthaldi sem við höfum nýtt í baráttunni við Covid-19 hingað til og við munum nýta áfram á árinu 2021, sem verður árið þegar við náum undirtökum í baráttunni við faraldurinn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)