151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi.

423. mál
[14:22]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Með skýrslubeiðni þessari er óskað eftir því að sjávarútvegsráðherra flytji Alþingi skýrslu um samantekt á eignarhaldi eigenda 20 stærstu útgerðarfyrirtækjanna í þeim fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi sem hafa ekki útgerð fiskiskipa með höndum.

Sjávarútvegur er ein mikilvægasta stoð íslensks efnahagslífs. Eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækja hefur batnað verulega síðastliðinn áratug. Vísbendingar eru um að fjárfestingar þeirra út fyrir greinina sjálfa hafi aukist í samræmi við það sem er jákvætt að því leyti til að það dreifir áhættu félaganna en á okkar litla markaði getur það hæglega leitt til of mikilla áhrifa í þeim skilningi að dragi úr virkri samkeppni á mörkuðum. Við erum það smá að það getur haft veruleg áhrif og með þeim upplýsingum sem hér er kallað eftir er hægt að varpa ljósi á raunverulega stöðu mála.