151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að við séum að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Lengi hefur verið beðið eftir þessari mikilvægu og sjálfsögðu breytingu. Þegar kemur að skiptingunni verður að segjast að hér eru ýmsar andstæður. Við Píratar höfum reynt að koma á ábyrgri málamiðlun með því að leggja til skiptinguna fjórir, fjórir, fjórir. Hvers vegna? Vegna þess að í fullkomnum heimi myndum við vilja sjá að foreldrar hefðu sjálfir algert val um það hvernig þeir skipta mánuðunum á milli sín. Hins vegar stendur ekki til að gera fjölskyldum það kleift. Það eru engir hvatar sem fylgja og þar af leiðandi er ekki ábyrgt að leggja það til að svo stöddu. Sömuleiðis er þessi stífa helmingaskipting sem meiri hlutinn leggur til hvorki fjölskyldum né börnum til hagsbóta. Hún er það ekki vegna þess að hún mun ekki nýtast öllum fjölskyldum, sem þýðir að sum börn verða af 12 mánuðum með foreldrum sínum vegna ósveigjanleika kerfisins. Það eru sérstaklega konur í láglaunastéttum og karlar í láglaunastéttum sem verða fyrir barðinu á því. (Forseti hringir.) Við leggjum því til málamiðlunartillögu og við hvetjum þingmenn til að samþykkja hana.