151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:54]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum verið lukkuleg og ánægð með þann árangur sem næst hér í dag. Sjálf hefði ég viljað ganga lengra, mér finnst það lógískt og eðlilegt skref í kjölfar farsællar löggjafar til tveggja áratuga að þora að stíga skrefið alla leið og færa foreldrum sjálfstæðan rétt að fullu til fæðingarorlofs. Mér finnst mikilvægt í því samhengi að rifja það upp að góður árangur Íslands í jafnréttismálum er engin hending, engin tilviljun. Hann kom ekki bara með tímanum heldur er afleiðing af aðgerðum og markvissri lagasetningu.

Ég heyrði orð hér inni í sal rétt áðan um að það væri ákveðið þrot í jafnréttismálum. Mér finnst það lýsa algeru þroti að ætla að segja pass við jafnrétti og ætla ekki að taka þátt í því og raunar algjört þrot að geta ekki séð veruleikann fyrir það sem hann er. Ég held að tólf, núll hugmyndin myndi gera jafn mikið fyrir Ísland (Forseti hringir.) og landsleikur forðum sem fór 14:2. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Heyr, heyr.)