151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér engin stór ágreiningur í þessum sal og margir hafa til síns máls. En það eru skiptar skoðanir um hvernig við eigum að gefa foreldrum tækifæri á að skipta fæðingarorlofinu á milli sín. Við skulum ekki gleyma okkur í því. Aðalatriðið er að við erum að ná þessu risastóra skrefi. Geðvernd stóð fyrir skoðanakönnun þar sem tveir þriðju foreldra greiddu atkvæði með því að hafa eigin ákvörðunarvald um það hvernig þeir skipta þessu á milli sín. Landlæknisembættið mælti með slíkri leið, Ljósmæðrafélagið og Barnaheill. Það er talað um að sérfræðingar hafi fjallað um þessi mál. Þetta eru líka sérfræðingar. Og kannski eru foreldrarnir bestu sérfræðingarnir í eigin málum þegar upp verður staðið. Hér er um framsækna lagasetningu að ræða sem mun færa okkur fram á veginn. Það er aðalatriðið. Ég held að þegar allt kemur til alls taki ég undir með hv. þingmanni sem sagði í ræðu í gærkvöldi eða í nótt að löggjafinn geti klappað fyrir sér í lok dagsins.