151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um einhvers konar málamiðlun milli ríkisstjórnarflokkanna um það hvort við ætlum áfram að stíga framfaraskref í átt að jafnrétti kynjanna, jafnrétti feðra til töku fæðingarorlofs, jafnrétti mæðra, jafnrétti kvenna á vinnumarkaði. Þetta skiptir mjög miklu máli. Ég veit að kynin eru mörg og foreldrar eru af öllum kynjum en ég tók svona til orða. Þetta snýst um jafnrétti allra til töku fæðingarorlofs vegna þess að sums staðar á vinnumarkaði er ekki vel séð að verið sé að taka fæðingarorlof meira en bara það sem er eyrnamerkt og það er engin tilviljun, herra forseti, að 90% af umsemjanlegum mánuðum, eins og þeir eru núna, eru nýtt af konum, af mæðrum. Og hvað þýðir það? 10% eru nýtt af körlum, vegna neikvæðs þrýstings á vinnumarkaði. Það er ekki vel séð að þeir fari lengur í orlof en nauðsynlegt er og þess vegna ætla ég ekki að (Forseti hringir.) styðja þessa málamiðlun Vinstri grænna og Framsóknarflokks undir þrýstingi Sjálfstæðisflokks við þetta annars mjög góða frumvarp hæstv. ráðherra.