151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er ágætisumræða sem hér fer fram. En hver er stóra myndin í málinu? Stóra myndin er sú að við erum að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði sem er risastórt velsældarmál fyrir barnafjölskyldur á Íslandi. Stóra myndin í málinu sem við erum núna að greiða atkvæði um er að sex mánuðir eru eyrnamerktir hvoru foreldri með sex framseljanlegum vikum. Meiri réttur er eyrnamerktur hvoru foreldri en í því kerfi sem lengst af hefur verið við lýði þar sem þrír mánuðir voru eyrnamerktir hvoru foreldri. Það er kerfið þar sem ég eignaðist þrjú börn og skipti orlofinu með ýmsum hætti og er ástæða þess að ég hef getað sinnt því starfi sem ég er í núna. Það er fæðingarorlof þar sem báðir foreldrar eiga skýrt skilgreindan rétt en hefur þó ákveðinn sveigjanleika. Mér finnst þessi lending góð því að hún tekur tillit til allra þessara sjónarmiða. Þetta er gríðarlegt framfaramál fyrir barnafólk á Íslandi og fyrir jafnrétti kynjanna. Það er stóra myndin í því máli sem við afgreiðum hér í dag. Þó að öll sjónarmið sem hér hafa komið upp geti verið mikilvæg (Forseti hringir.) er það þetta sem skiptir mestu máli fyrir fólkið í landinu. Þetta er góð tillaga og ég segi já.