151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[15:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er um að ræða mjög mikilvægt ákvæði. 9. gr. heimilar framsal eða tilfærslu á rétti foreldris til fæðingarorlofs. Hér er um að ræða að þessi eyrnamerking á sex mánuðum færist á hitt foreldrið ef alger ómöguleiki er fyrir hendi. Tilgreind eru mörg atriði í þessu ákvæði, t.d. ef um alvarlegan sjúkleika er að ræða eða slys, ef foreldri andast, ef foreldri afplánar refsivist og svo það sem við höfum deilt mjög um í dag; ef foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu. Þetta er lykilatriði.

Ég lagði til breytingu þannig að það gilti líka ef nálgunarbanni væri beitt gagnvart foreldrinu, vegna þess að ungbörn eru iðulega talin hluti af foreldri í frumbernsku þannig að nálgunarbanni er sjaldnast beitt gagnvart barninu á þessu æviskeiði. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við komum þessari breytingu inn, að það sé einnig tilfærsluheimild þegar kemur að nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu. Búið er að kalla þetta mál til nefndar fyrir 3. umr. (Forseti hringir.) Ég vildi bara vekja athygli á að verið er að hliðra til í ýmsum aðstæðum. (Forseti hringir.) Vonandi tekst okkur að sameinast um þetta.