151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[16:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Aðkoma lækna að þessu máli hefur verið mjög takmörkuð þangað til núna undir lokin eftir að fulltrúi Miðflokksins í allsherjarnefnd fór fram á að málið yrði kallað aftur til nefndar. Það er ranghermt hjá formanni nefndarinnar að þar hafi menn verið einróma hlynntir þessum áformum, þvert á móti. Þar komu fram athugasemdir sem voru þess eðlis að það væri ekkert vit í öðru en að fresta þessu máli og vinna það betur. En það hefur ekki verið gert. Frumvarpið er komið hér til atkvæða. Við í Miðflokknum höfum hins vegar verið í sambandi við íslenska lækna um allnokkurt skeið sem hafa tjáð okkur miklar áhyggjur af þessu máli og þessi breytingartillaga er viðbrögð við þeim áhyggjum. Þeir sem hafna þessari tillögu geta ekki haldið því fram að ekki sé verið að hindra það að börn fái mikilvæga heilbrigðisþjónustu.