151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[16:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þetta mál snýst allt um endurskilgreiningar. Nú endurskilgreina menn hvað er nauðsynleg heilbrigðisþjónusta til að geta haldið því fram að ekki sé verið að koma í veg fyrir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Hæstv. forsætisráðherra svaraði því þannig til í gær að ekki ætti að koma í veg fyrir lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu en ítrekað í þessu frumvarpi er því lýst hvaða þjónustu er verið að koma í veg fyrir. Það er þjónusta sem getur haft veruleg áhrif á líf barna og síðan sem fullorðinna alla ævi þeirra. En það að hv. þingmenn skuli hafa hafnað breytingartillögu sem hljóðar svo, herra forseti:

„Þrátt fyrir 2. mgr. er forsjáraðilum barns undir 12 ára aldri heimilt að taka ákvörðun um varanlegar breytingar á þvagfærum og/eða kynfærum barns ef fyrir liggur mat læknis á viðeigandi sérfræðisviði að aðgerð eða önnur meðferð sé til þess fallin að auka lífsgæði barnsins.“

Þetta felldu þingmenn, að ráðast mætti í aðgerðir sem væru til þess fallnar að auka lífsgæði barnsins með hjálp sérfræðinga.