151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[16:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp í fyrsta lagi til að fagna því að þetta mál er nú í höfn, þetta mikilvæga mannréttindamál. Ég tek undir þakkir til hæstv. ráðherra Svandísar Svavarsdóttur og Katrínar Jakobsdóttur ásamt framsögumanni málsins, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, fyrir virkilega gott utanumhald um málið og fyrir að hafa komið því hingað í höfn. Það er virkilega gott.

Ég má til með að leiðrétta þær rangfærslur sem komið hafa fram frá hv. þingmönnum Miðflokksins um að einhverjir hafi haldið því fram að hér væri verið að meina börnum um nauðsynlegar læknisaðgerðir, aðrir en þeir sjálfir auðvitað sem halda fram þessum rangfærslum. Ég sat þessa fundi. Ég spurði læknana sem við töluðum við sérstaklega hvort þeir teldu að með frumvarpinu yrði komið í veg fyrir nauðsynlegar læknisaðgerðir á börnum. Svörin voru nei, herra forseti, afdráttarlaus og skýr, nei. Það er rangt farið með hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hann sat heldur ekki þennan fund. Það er rangt farið með hjá honum. Það var spurt sérstaklega að þessu og þetta er rangt. Það eru allir ósammála Miðflokknum, sem betur fer.