151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er einn útgjaldaliður í þessu frumvarpi sem vekur nokkra undrun að mínum dómi en það er tillaga um 418,8 millj. kr. viðbótarframlag til að mæta kostnaði vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Einungis 19,1 milljón er þar inni vegna veirufaraldursins. Verði frumvarpið samþykkt nemur kostnaðurinn við málaflokkinn rúmum 4,4 milljörðum á árinu 2020. Á þremur árum, eða frá 2018, nam kostnaðurinn um 12 milljörðum kr. í þessum málaflokki en það kom fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn hér á Alþingi. Fjárbeiðni þessi er sérstök í ljósi þess að umsóknum um alþjóðlega vernd hefur fækkað á þessu ári. Flugsamgöngur hafa legið niðri að stórum hluta í marga mánuði á árinu vegna veirufaraldursins. Engu að síður er óskað eftir hækkun í málaflokkinn sem nemur rúmlega 400 millj. kr. Á þessu ári eru umsóknir um alþjóðlega vernd færri og fjárveiting til hælisleitenda sérstaklega er á þessu ári 3,2 milljarðar. Þann 1. október síðastliðinn voru 956 umsóknir um alþjóðlega vernd og kostnaðurinn 2,4 milljarðar. Með réttu ætti því að vera afgangur á fjárveitingum til málaflokksins upp á rúman hálfan milljarð króna. Hér er hins vegar verið að biðja um 400 millj. kr. í viðbót. Ég held að þetta þarfnist skýringa. Við þurfum náttúrlega að huga að ráðdeildarsemi í fjármálum núna þegar kreppir að og skuldastaða ríkissjóðs er orðin mjög slæm. (Forseti hringir.) Gæti hv. þingmaður farið aðeins yfir þetta? Ég skil ekki alveg hvers vegna verið er að biðja um aukafjárveitingu þegar í raun og veru (Forseti hringir.) ætti að vera afgangur af málaflokknum vegna færri umsókna um alþjóðlega vernd á árinu.