151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er bara ósammála hv. þingmanni. Hér er tekið er sérstaklega fram að gert sé ráð fyrir að fjöldinn verði 90% af fjöldanum á síðasta ári. Það er því ekki mikil fækkun. Tekið er fram að mestu muni um aukinn leigu- og launakostnað. Síðan er talað um Covid-kostnaðinn. Leigja þurfti aðstöðu fyrir skimanir og sett var upp ný vinnuaðstaða og viðtalsherbergi. Gerð er grein fyrir í hverju þessi kostnaður er fólginn. Við getum auðvitað tekist á um hvort það eru miklir eða litlir peningar í þessu. Sannarlega eru miklir peningar þarna inni. Með þetta eins og annað er alltaf gott að fara yfir málaflokkinn í heild og ég held að sífellt sé verið að gera það. Ég tel a.m.k. að þetta sé nægjanlega skýrt og tel okkur ekki þurfa að fara eitthvað sérstaklega meira yfir það.