151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:28]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Aldrei þessu vant ætla ég að tala frekar stutt um fjármálin. Við erum búin að ræða þetta fram og til baka, fjárlög, fjármálaáætlun og fjárauka. Ég ætla að reyna að forðast að endurtaka mig þótt stundum sé þörf á því. Þetta er fimmti fjáraukinn á mjög óvenjulegu ári. Ég man aldrei eftir jafn mörgum fjáraukum. Ég held að í sjálfu sér hafi aldrei jafn margir fjáraukar verið samþykktir. Það lýsir ástandinu sem blasir við þjóðinni og þeirri fordæmalausu stöðu sem hagkerfið er í.

Það er ágætt að brjóta þennan fjárauka aðeins upp. Hann á auðvitað að tækla óvænt útgjöld og nóg hefur verið af óvæntum útgjöldum á þessu ári. Þessi fjárauki er upp á 65 milljarða kr. og með stærri fjáraukum sem hafa komið. Það er ágætt að hafa í huga að helmingurinn af upphæðinni er vegna atvinnuleysisbóta. Fólk á auðvitað rétt á atvinnuleysisbótum. Ef atvinnuleysi er í methæðum verður heildarfjárhæð atvinnuleysisbóta sömuleiðis í methæðum. Þetta er því ákveðinn spegill á stöðuna sem blasir við. Við erum með yfir 20.000 manns á atvinnuleysisskrá. Við höfum aldrei séð svona háar atvinnuleysistölur, a.m.k. ekki í langan tíma. Það er að sjálfsögðu þessi 100 ára djúpa kreppa sem við glímum við. Helmingurinn er atvinnuleysisbætur, einn þriðji er síðan tekjufallsstyrkirnir svokölluðu sem við styðjum í Samfylkingunni.

Ég vil bara minna á að við lögðum það til strax í apríl að innleiða slíka tekjufallsstyrki. Sú tillaga var því miður felld af stjórninni eins og nánast allar okkar tillögur iðulega. Það er ánægjulegt að þetta sé komið. Við höfum stutt allar góðar tillögur frá ríkisstjórninni, hvort sem það eru tekjufallsstyrkir, lokunarstyrkir, viðspyrnustyrkir eða hvað það kallast. Við áttum okkur að öllu leyti á hversu mikill vandinn er í íslensku samfélagi, hjá fyrirtækjum og ekki síst hjá því fólki sem hefur tapað vinnunni. 80% af heildarupphæð fjáraukans eru vegna þessara tveggja aðgerða. Það eru atvinnuleysisbætur og tekjufallsstyrkir.

Síðan er ánægjulegt að verið sé að bæta Covid-kostnaðinn svokallaða sem heilbrigðisstofnanir hafa orðið fyrir. Það er margbúið að lofa heilbrigðisstofnunum og öðrum stofnunum að sá kostnaður sem lendir á þeim vegna Covid eigi að vera bættur í fjárauka. Við fengum þær upplýsingar í fjárlaganefnd Alþingis að það væri gert hvað varðar heilbrigðisstofnanir og ég geri ráð fyrir að það hafi verið gert gagnvart öðrum stofnunum ríkisins og líka hjúkrunarheimilum sem mörg hver eru sjálfseignarstofnanir. Við þurfum að átta okkur á því að fjölmargar stofnanir hafa orðið fyrir miklum fjárútlátum vegna Covid, ekki bara heilbrigðisstofnanir heldur eru það hjúkrunarheimilin, það er löggæslan og svo eru það félagasamtök. Við verðum að líta á SÁÁ, Geðhjálp og hjálparsamtök. Allt eru þetta mikilvægir hlekkir í samfélagi okkar, ekki síst á tímum neyðarástands. Ég held að við ættum ekki að gleyma þessum aðilum sem sinna alveg gríðarlega óeigingjörnu og nauðsynlegu starf í samfélagi okkar, ekki síst þegar fólki líður illa eða er að glíma við sjúkdóma eins og vanlíðan eða fíkn.

Ég gat þess í andsvari mínu við framsögumann málsins að hér væri afskaplega snautleg tillaga um fjármagn til sveitarfélaganna. Það eru rúmir 2 milljarðar en sveitarfélögin hafa verið að kalla eftir 50 milljörðum, reyndar á þessu ári og næsta. Vandi sveitarfélaganna er mikill og er sérstök ástæða til að ítreka áhyggjur mínar af sveitarfélögunum sem eru með þessa nærþjónustu og hafa ekki sama bolmagn og ríkisvaldið til að draga á hagstæð lán eða heimildir til skattlagningar. Við þurfum að ná aðeins betur til sveitarfélaganna hvað þetta varðar. Margir þingmenn í þessum sal hafa sterkar taugar til sveitarfélaganna. Sumir þingmenn eru fyrrverandi sveitarstjórnarmenn. Það ætti því að vera hægur leikur að skilja þann vanda sem sveitarfélögin eru í.

Ég ætla ekki að halda löngu ræðuna mína um skort á frekari innspýtingu í fjárfestingarátak, nýsköpun eða umhverfismál. Ég hef margítrekað rætt það allt saman. Ég ætla bara að fara örlítið í þetta, ég er alveg að verða búinn. Þetta eru ekki stóru tölurnar en ég ætla að nefna að verið er að bæta við 55 millj. kr. til Ríkisútvarpsins. Ég fagna því innilega en í því sambandi minni ég á að næsta ár er Ríkisútvarpið að lenda í 160 millj. kr. niðurskurði vegna breytts innheimtuhlutfalls eins og það kallast. Mér fannst ekki fullnægjandi skýringarnar sem við fengum í nefndinni á því að verið væri að lækka innheimtuhlutfallið með þeim afleiðingum að RÚV fengi 160 millj. kr. minna á næsta ári en það fær núna. Það finnst mér áhyggjuefni, sérstaklega þar sem Ríkisútvarpið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki, ekki bara á tímum heimsfaraldurs heldur alltaf. Mér fannst sérkennilegt að við værum ekki tilbúin að bæta það upp í fjárlögum. En nú er ég kominn í hitt málið sem verður á dagskrá seinna í dag.

Borgarleikhúsið fær 50 milljónir, ég bara flagga því. Það er ánægjulegt en fjárbeiðni þeirra var upp á 60 milljónir. Ég átta mig ekki alveg á af hverju nefndin var ekki tilbúin til að uppfylla fjárþörf Borgarleikhússins. Þetta eru tíu milljónir og við förum ekki á hausinn af því.

Að lokum vil ég draga það fram að ég hef sérstakar áhyggjur af stöðu einstakra hjálparsamtaka. Þetta eru ekki stóru tölurnar en við erum að fá upplýsingar um að hjálparsamtök, og ekki síst þau samtök sem standa í matarúthlutun — hugsið ykkur, matarúthlutun — hafa aldrei upplifað aðra eins ásókn í þjónustuna. Ég veit að búið var að setja eitthvað til þessara samtaka en ég held að við þurfum að gera betur hvað það varðar, hvort sem það kæmi inn í fjárauka eða fjárlögin. Auðvitað er ekkert sorglegra en að vita til þess að hér sé fólk í röðum að bíða eftir mat fyrir jólin. Við eigum ekki að vera slíkt samfélag. Og með 1.000 milljörðum úr að spila, eins og þessi salur hefur, höfum við fullkomlega efni á að mæta þessum samtökum. Auðvitað þurfum við að mæta þeim einstaklingum sem eru í þeirri skelfilegu stöðu að upplifa fátækt í íslensku samfélagi. Fátækt er ekki eitthvert náttúrulögmál, bara alls ekki. Fátækt getur verið afleiðing af kerfinu sem við viðhöldum hér í þessum sal, skattkerfinu, almannatryggingakerfinu o.s.frv. Það er sorglegt, og auðvitað eru allir þingmenn sammála um það, að um 6.000 íslensk börn þurfi að upplifa fátækt. Stór hluti öryrkja og hluti eldri borgara upplifir fátækt í okkar landi. Við erum tíunda ríkasta land í heimi, munið það. Hér eru úrræði til að mæta öllum. Ég veit að vilji er til að bæta í en betur má ef duga skal. Þessir hópar eru óánægðir og búnir að vera óánægðir allt kjörtímabilið. Við hljótum að vera að gera eitthvað rangt ef hvert einasta ár kemur harðorð yfirlýsing frá Öryrkjabandalaginu og frá samtökum eldri borgara um að við eigum að gera betur. Það er ekkert náttúrulögmál að þessir hópar séu óánægðir.

Af hverju getum við ekki bara mætt þessum hópum með aðeins myndarlegri hætti en hér er gert? Við í Samfylkingunni höfum ítrekað kallað eftir því, og aðrir flokkar hafa gert það sömuleiðis, hv. þm. Inga Sæland þar á meðal og í broddi fylkingar, að eldri borgarar séu ekki skildir eftir varðandi þær kjarabætur sem aðrir hópar fá samkvæmt lífskjarasamningunum. Þessar 15.750 kr. sem Félag eldri borgara og Landssamband eldri borgara hafa sett á oddinn, það er svo augljóst að við ættum að gera þetta en ég held að stjórnarmeirihlutinn sé búinn að fella þá tillögu þrisvar eða fjórum sinnum frá þremur eða fjórum flokkum. Stjórnarmeirihlutinn fær lokatækifæri seinna í dag til að taka undir tillögu okkar í Samfylkingunni um að skilja aldraða ekki eftir þegar kemur að þessum kjarabótum. Hvers konar skilaboð eru það til 45.000 eldri borgara að þeir eigi ekki að fá jafn mikla hækkun og aðrir hópar fengu samkvæmt svokölluðum lífskjarasamningum? Þetta er ekki há tala, þetta eru 3 milljarðar. Það myndi ekki sjá högg á vatni ef við tækjum bara þetta skref seinna í dag. Allir gætu farið mjög stoltir út í jólin. En því miður segir reynsla mín mér að tillagan verði felld. En hver veit? Þetta er lokatilraun okkar til að reyna að bæta fjárlögin. Það er aldrei að vita, kraftaverk gerast og ekki síst á jólunum.