151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Afstaða er með framlag frá félagsmálaráðuneytinu, eins og hefur komið fram, þannig að allir eru með fjármagn þótt ekki sé um að ræða mikla peninga. (Gripið fram í: Hvað var það aftur mikið? ) Það voru 3 milljónir sem þeir voru með, eins og kom fram hjá formanni þess félags. Þegar hv. þingmaður segir að framkvæmdarvaldinu komi þetta ekkert við vil ég segja: Við færum þessa peninga með ákveðnu fororði hér í nefndarálitinu og felum framkvæmdarvaldinu að sinna því. Þannig að auðvitað er ekki hægt að segja að því komi það ekki við og við leitum ekki bara fanga hjá ráðuneytum þegar við erum að kanna hlutina, við gerum það víðar, svo það sé sagt. Ég hvet því hv. þingmann til að vera ekki endilega mjög stóryrt þegar kemur að þessu. Sama vil ég segja um mataraðstoð. Það þekkir hv. þingmaður líka. Það hefur komið framlag bæði í apríl og júní og aftur er það núna, framlag til þeirra, að sjálfsögðu á það gerast, sem eru að bjóða fólki til sín til að fá að borða, eins og hv. þingmaður nefndi hér. Mér finnst ómálefnalegt að halda því fram eða alla vega að gera mjög lítið úr því sem gert hefur verið því að það hafa farið tugir milljóna bara á þessu ári í að styðja við hjálparsamtökin og það er enn verið að gera það. Það liggur fyrir að við erum búin að fá minnisblað, m.a. um hvernig fjármagni hefur nú þegar verið skipt og að fram undan sé að það eigi að styrkja og styðja við þessi samtök. Okkur getur greint á um hversu háar fjárhæðir eiga að vera í þessu eins og svo mörgu öðru en það er verið að styðja við þessa aðila og það á að gera.